140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar upplýsingar. Það fer aðeins eftir því hvort maður horfir bara til kærunefnda á stjórnsýslustigi eða tekur líka með ýmsar sérnefndir sem komið er á fót, sumar hafa tímabundið hlutverk, og bætir síðan við eftirlitsnefndunum, þá er maður kannski kominn með stærsta mengið.

Þetta eru fróðlegar tölur sem þingmaðurinn rekur hér og alveg augljóst að ekki ber aðeins að horfa á kostnaðinn sem af þessu hlýst heldur líka á gegnsæið eða hagkvæmnina í þessu fyrirkomulagi. Þetta hefur verið gagnrýnt meðal annars í sérstakri skýrslu sem kom út um nefndirnar fyrir örfáum árum og það sló mig mjög hversu margar þær eru orðnar.

En við erum að ræða um sparnaðinn við fækkun ráðuneyta og við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það er tiltölulega óskýrt í hverju hann liggur öðru en því að fækka um einn og einn bílstjóra og kannski einn og einn ráðuneytisstjóra.