140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:01]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar er farið víða í umræðunni. Ég tek alveg undir þau sjónarmið sem koma fram í máli hv. þingmanns að átökin eins og þau birtast okkur í öðrum stjórnarflokknum um þessi Evrópumál eru gríðarlega mikil og eru að hluta til að því leytinu tengd þessu máli. Hvernig það nákvæmlega er hefur maður ekki hugmynd um.

Það kann vel að vera að vilji liggi til þess að draga til sín nýtt fólk, eða eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Það er því mögulegt að fleiri en einn ráðherra gegni embætti í ráðuneyti sem gæti komið til móts við þær áhyggjur að erfitt sé fyrir einn ráðherra að hafa yfirsýn.“

Kann vel að vera að þetta ákvæði sem sett var hér inn bendi til þess að menn beri væntingar til þess að hægt sé að lægja öldur með því að skipa fleirum til verka. Það eru allt spekúlasjónir sem í mínum huga eiga fullan rétt á sér en enginn veit í raun hvort einhver innstæða er fyrir því né hversu mikil nema þeir sem að tillögunni standa.

Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að allar útfærslur vantar varðandi fjárhagslega þætti þessa máls. Það liggur þó eitt fyrir, sem er í rauninni mjög heiðarlegt af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að nefna, að það er beinlínis tiltekið að markmið þeirra fyrirhuguðu breytinga sem hér er verið að gera er ekki sparnaður, eins og sagt er hér. Það er langt síðan slíkt skjal hefur sést þar sem settar eru fram breytingar um stofnanastrúktúr eða annað í stjórnsýslunni þar sem því er beinlínis lýst yfir (Forseti hringir.) að markmiðið með því sé ekki að spara fjármuni skattgreiðenda.