140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:06]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar andsvarið. Hv. þingmaður hefur sýnt mikla þrautseigju í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og ber að þakka fyrir það, það er til eftirbreytni og til fyrirmyndar.

Ég deili hluta þeirra skoðana sem hv. þingmaður setur fram varðandi eitt atvinnuvegaráðuneyti, að það kunni að vera kostur. En það sem skortir á í því sem hér liggur fyrir er svar við ákveðnum grundvallarþáttum sem ég meðal annarra kallaði eftir við fyrri umræðu um þetta mál.

Hvernig á að skipa öðrum þáttum sem heyra undir bæði atvinnuvegaráðuneytin eins og þau eru núna og síðan umhverfisráðuneytið? Við höfum ekki fengið skýr svör við því, t.d. varðandi nýtingu, verndun, útfærsluna o.s.frv., til að sannfæra þá sem eiga að taka þátt í því að afgreiða þetta mál með hv. stjórnarliðum. Þeir sem hafa unnið í málinu með þeim hafa ekki verið sannfærðir í þeim efnum og ég ekki heldur.

Ég nefndi það í ræðu minni að mér þættu það ekki rök sem koma fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni og síðan í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það eru ekki rök fyrir því að steypa þessum ráðuneytum saman að gefa í skyn að það sé forsendan fyrir því að við getum lagt grunn að sjálfbærri nýtingu auðlinda þegar hæstv. núverandi umhverfisráðherra lýsir því yfir á sama tíma að engin fyrirstaða sé í núgildandi löggjöf sem meini að þannig sé unnið.

Það eru þessir þættir sem ég hef gert athugasemdir við og vil undirstrika að mér þykir full ástæða til að ræða.