140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kom inn á sameiningu í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Nú er ég aftur á annarri skoðun en hann. Mín skoðun er sú að þetta sé einmitt gott þegar kemur að nýtingu. Þá er ég ekki að tala um sjávarauðlindina þó að vissulega mætti velta því fyrir sér hvort færa ætti hana líka í auðlindaráðuneyti. Það má velta því fyrir sér en það stendur ekki til eins og ég geri ráð fyrir að þingmaðurinn viti. Ég tel að það mætti vel velta því fyrir sér, en ég er líka svo mikið fyrir breytingar.

Á hinn bóginn held ég að það sé gott þegar við komum að náttúruauðlindum á landi, orkuauðlindinni, að umhverfisráðuneyti og auðlindaráðuneyti séu eitt og hið sama ráðuneyti. Oft og kannski oftast þegar við ákveðum eitthvað, hvort heldur er í auðlindamálum eða umhverfismálum, þá erum við með tvær hliðar á sama peningi vegna þess að það sem ákveðið er í auðlindamálum við að nýta auðlindina hefur áhrif á umhverfið og það sem við ákveðum í umhverfismálum getur haft áhrif á hvernig auðlindirnar eru nýttar.

Ég er þeirrar skoðunar, það getur vel verið að einhverjir séu allt annarrar skoðunar, að betra sé að hafa þetta undir sama hatti því að þá náist meiri skilningur á þessum tveim sjónarmiðum en ef togstreita er á milli ráðuneyta, eins og einhver hv. þingmaður orðaði það, og það sé af hinu góða. Ég vil minni togstreitu, meiri skilning, það vil ég. Takk.