140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:43]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann nokkurra spurninga.

Í fyrsta lagi: Hefur hv. þingmaður fundið einhvern snefil í fátæklegum grasagarði ríkisstjórnarinnar af tilburðum um endurmótun íslensks atvinnulífs, sem var ær og kýr og metnaður til að mynda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Hefur hv. þingmaður hugmynd um hvaða samsetning í rauninni er á þeim óskapnaði sem hér er settur í tillöguform og gera á allsherjarbreytingu á Stjórnarráði Íslands?

Í leikjum barna framan af og lengi á síðustu öld var stundum boðið til kaffiveislu þegar búnar voru til drullukökur í litlum leikkofum. Þá voru leiktækin einfaldari en drullukökurnar voru dýrlegar veislur þó að þær væru ekki borðaðar en menn sáu fyrir sér í hillingum glæsileg krem og skrautflúr á þeim tertum sem voru gerðar úr mold, vatni og einhverju öðru lítið spennandi til matar.

Þetta er náttúrlega sams konar hrærigrautur sem hæstv. ríkisstjórn er nú að bjóða upp á hér á hv. Alþingi. Og það er með ólíkindum að sá mannskapur sem hér er um borð skuli þora að standa á dekkinu, skuli bara ekki koma sér í bátana og koma sér í land. En það styttist í það.

Hv. þingmaður vék að gamla Alþýðuflokknum. (Forseti hringir.) Ég kem að því síðar, virðulegi forseti.