140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:48]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður ætlar að rífa bátinn úr straumböndum sem valda stjórnleysi þarf að taka djúpt í árinni. Það er gamall og góður siður og er gott verklag. Það þýðir ekki að vera að gutla í snöggum og stuttum áratogum nema í einhverjum sportróðri.

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki með ólíkindum að hæstv. ríkisstjórn sé núna að fleyta slíku máli áfram sem hér um ræðir rétt áður en áhöfnin verður afmunstruð, hún verður meira en afmunstruð, það er kurteislega sagt, hún er að fara frá borði og það vita allir. Það vita allir, alveg eins og menn vita að sólin kemur upp á hverjum degi, að þessi stjórn er að falla í síðustu skugga sjálfrar sín.

Er það ekki forkastanlegur dónaskapur af ríkisstjórn Íslands að bjóða upp á málsmeðferð sem þessa? Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann viti um nokkur dæmi, fordæmi fyrir slíkri málsmeðferð á stjórnarráði sjálfstæðrar þjóðar, þó að hún sé ekki nema 70 ára gömul? Manni kynni að detta í hug að svona fordæmi gæti verið til staðar inni í svörtustu Afríku, í ákveðnum ríkjum þar, (Gripið fram í.) en maður nær ekki að meta það alveg sama hvað maður rýnir, því að nú rýna menn í allt. Áratugum saman hefur það verið meining í íslenskri tungu að sá sem þyrfti að rýna þyrfti gleraugu, hann sæi illa. Nei, nú er það gáfulegt að vera að rýna, rýna allt.

Því spyr ég hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessari þróun og ekki síst að hér skuli vera (Forseti hringir.) eins konar huldufólk í pólitík innan þings, flokksleysingjar, (Forseti hringir.) sem gefur sig út fyrir að styðja ríkisstjórnina án þess að segja það. (Forseti hringir.) Komi þeir sem koma vilja og fari þeir sem fara vilja, virðist vera mottó þess flokks sem hefur ekki mikla reisn yfir sér. (Gripið fram í.)