140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög sérstakt að koma fram með þetta mál núna þegar um ár er til kosninga. Ríkisstjórnin hefur haft allt kjörtímabilið til að breyta hér málum sem snúa að Stjórnarráðinu. En það virðist einhvern veginn vera, og við erum að sjá það hérna núna og höfum séð það líka á fyrri þingum, algjört kappsmál hjá hæstv. forsætisráðherra að vera að hringla í Stjórnarráðinu, ráðuneytisbreytingum, flytja stofnanir hægri vinstri, sameina ráðuneyti, flytja þau milli húsa. Það virðist vera að hæstv. forsætisráðherra hafi á tilfinningunni að hún sé að gera rosalega mikið ef hún er samfellt að gera breytingar.

Svo eru gögn auðvitað sem sýna að verulegur kostnaður og mikið óhagræði fylgir þessu. Maður veltir fyrir sér hverjar hugmyndirnar séu á bak við það, eins og ríkisstjórnin er að gera, að þjappa valdinu svona saman, auka völd embættismannanna eins og þessar tillögur bera með sér.

Fyrrverandi hæstv. ráðherra, Ragna Árnadóttir, sagði í útvarpsviðtali daginn eftir að hún hætti sem ráðherra að menn yrðu að átta sig á því að eftir því sem ráðuneytin stækkuðu mundu völd kjörinna fulltrúa minnka en völd embættismanna aukast og yfirsýn ráðherra yfir málaflokka mundi dragast saman. Þetta var ekki kona sem var að tala fyrir einhvern ákveðinn stjórnmálaflokk. Þetta var Ragna Árnadóttir sem var einn vinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar á þeim tíma og hafði líka mikla innsýn inn í embættismannakerfið því að hún var ráðuneytisstjóri áður en hún varð ráðherra.

Það er annað sem hv. þingmaður kom inn á áðan, og ég kom aðeins að í ræðu minni, og snýr að því að ríkisstjórnin hefur ekki stjórnarmeirihluta í málinu. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar við erum að horfa upp á það að hér kunni að vera stjórnmálaflokkur sem einn daginn segist styðja ríkisstjórnina og annan daginn ekki. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvort þessi ágæti þingflokkur, þingflokkur Hreyfingarinnar, er hluti af stjórnarliðinu eða ekki. (Forseti hringir.) Það virðist bara fara eftir því hvernig þeir fara fram úr á morgnana. (Gripið fram í.)