140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:13]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðu hans. Hann varði megninu af tíma sínum í skipun nýs fjármálaráðuneytis og ræddi mikið um fjármálamarkað og annað. Ég get tekið undir með honum varðandi ferðalag Seðlabankans. Það hlýtur að teljast með miklum endemum, kominn úr forsætisráðuneyti og á nú að fara í fjármálaráðuneytið með viðkomu í efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji þetta ístöðuleysi ekki ákaflega vont fyrir þá stofnun sem Seðlabankinn er og hvort það sé ekki eðlilegt að fjármálastofnanirnar, sem hann ræddi svolítið í ræðu sinni að ættu að fara undir atvinnvegaráðuneyti, fylgi með Seðlabankanum í það ráðuneyti sem fyrirhugað er.

Nú kom fram hjá framsögumanni málsins, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, að hugsunin með þessu væri ekki að spara. Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann átti sig á því eitthvað frekar en ég hvert sé markmiðið með þessu. Það er talað um að þetta eigi á einhvern hátt að vera skilvirkara en ég átta mig ekki alveg á því hvort þarna séu einhver vandamál sem þarf að leysa.

Enn fremur er ég hugsi yfir þessum aðstoðarráðherrum sem kveðið er á um. Það á að fækka ráðuneytum en mögulegt er að fjölga ráðherrum til að koma í veg fyrir að embættismennirnir sjálfir hafi of mikil völd. Telur hv. þingmaður að þarna séu menn á villigötum eða er þetta eitthvað sem hann væri tilbúinn að skoða og útfæra frekar?

Svo kem ég kannski inn á fleiri atriði í seinna andsvari mínu.