140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þú þarft eiginlega að útvega mér skemil, það fer leiðinlega mikill tími í að lækka borðið. [Hlátur í þingsal.] Eins og þeir sem umgangast okkur Sindra á hverjum degi vita þá munar um einum metra á okkur.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta gæti leitt til togstreitu á milli t.d. verslunar og landbúnaðar. Nákvæmlega eins og hv. þingmaður bendir á er ljóst að hagsmunir verslunar eru aðrir en hagsmunir landbúnaðar og það gæti verið flókið fyrir ráðherra að ráða fram úr því hvernig leita mætti sætta þar á milli.

Hv. þingmaður gefur jafnvel í skyn að þessi umbreyting á Stjórnarráðinu hafi eitthvað að gera með Evrópusambandsaðild og þær viðræður sem eru í gangi um Evrópusambandið. Ég tek undir það með hv. þingmanni að óneitanlega var afar sérstakt þegar Evrópusambandið sá sérstaka ástæðu til að hrósa Íslendingum fyrir að losna við einn ráðherra úr ríkisstjórninni.

Hvað varðar Hreyfinguna skilst mér, án þess að vita það fyrir víst, að hún styðji málið vegna þess að hún hafi fengið einhverja setningu í greinargerð inn í nefndarálitið, eða „paragraff“ í greinargerð, [Hlátur í þingsal.] sem hefur ekki mikið að segja. En það er nú eins og oft með Hreyfinguna að hún sést ekki í þingsölum nema afar sjaldan og aldrei eftir sex á daginn, held ég.