140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ég ætla kannski að taka boltann upp þar sem skilið var við hann í umræðunni um þingmenn Hreyfingarinnar. Það vekur óneitanlega ákveðna athygli að þegar málið kom fram og við fyrri umr. þess virtist ekki vera stuðningur við það innan stjórnarliðsins. Í það minnsta voru tveir hv. þingmenn stjórnarliðsins sem fjölluðu um málið í fyrri umr. og gagnrýndu mjög vinnulag við málið, hvernig það væri til komið og hversu seint til komið. Annar þingmaðurinn gagnrýndi mjög alvarlega þær fyrirhuguðu breytingar að stofna umhverfis- og auðlindaráðuneyti, það var hv. þm. Jón Bjarnason. Hinn þingmaðurinn, hv. þm. Árni Páll Árnason, gagnrýndi mjög allt vinnulag við frumvarpið og þær fyrirhuguðu breytingar sem snúa að efnahagsmálum, eins og hv. þingmaður rakti vel hér áðan.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í athugasemdir þessara tveggja þingmanna við málið við fyrri umr. Í fyrsta lagi hvort hann geti tekið undir athugasemdir þeirra, og í annan stað hvort ekki sé verulega sérstakt þegar forustumenn í stjórnarliðinu leita fremur út fyrir eigin raðir eftir stuðningi við mál í stað þess að horfa til sjónarmiða og athugasemda innan stjórnarliðsins.

Nú veit ég að áður en hv. þingmaður varð þingmaður starfaði hann töluvert í þessum pólitíska heimi og þekkir þetta allt mjög vel. Telur hann ekki að yfirleitt sé unnið með þeim hætti að menn reyni að ná samkomulagi innan eigin raða í stað þess að reyna beinlínis að koma fram með öll mál í ágreiningi eins og hér hefur verið gert?