140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Hér í upphafi dags sagði hæstv. forsætisráðherra að það væri alvanalegt að Alþingi afgreiddi þingmál á færibandi, að svokölluð færibandaafgreiðsla væri alvanaleg og alþekkt í sögunni. Það var engu líkara en að hæstv. forsætisráðherra væri að mæla með þeirri aðferð að Alþingi væri einhvers konar stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið.

Eins og rakið hefur verið hefur þetta mál ekki farið til umsagnar, jafnvel þrátt fyrir að verulegar athugasemdir hafi komið fram við málið hjá gestum sem komu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og margir hverjir, einstök samtök, félagasamtök og hagsmunasamtök og fleiri, hafi beinlínis horfið af þeirri braut að skynsamlegt sé að samþykkja þær breytingar sem fyrir liggja.

Finnst hv. þingmanni ekki í því ljósi mjög sérstakt að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í máli þar sem rökstuðningurinn fyrir því er að auka fagleg og markviss vinnubrögð og annað því um líkt, skuli vísvitandi hafna því að málið fari til umsagnar og í eðlilegt umsagnarferli? Ég biðst velvirðingar á því að hafa farið rangt með en það kom fram hjá hv. þingmanni áðan að hann hóf sitt pólitíska starf í febrúar 2009, um það leyti sem sá sem hér stendur hóf sitt pólitíska starf einnig. Telur hann að það veganesti og þau vinnubrögð sem hann fór með inn í þetta pólitíska starf samræmist þessu, að halda áfram færibandaafgreiðslunni, draga úr faglegum vinnubrögðum, eins og í þessu máli? Er þetta hluti af hinu nýja Íslandi eins og hv. þingmaður sér það?