140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur var henni tíðrætt um efnahagsráðuneytið og þar af leiðandi Seðlabanka og Fjármálaeftirlitið. Í áðurnefndri skýrslu þingmannanefndarinnar, sem var umfjöllun um rannsóknarskýrsluna, var meðal annars talsvert fjallað um Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Ein af þeim niðurstöðum sem þingmannanefndin komst að og samþykkt var hér 63:0 eins og allir þekkja, var að gerð skyldi stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands, og segir með leyfi forseta: „Á grundvelli hennar verði metnir kostir og gallar þess að sameina starfsemi stofnananna í þeim tilgangi að tryggja heildaryfirsýn yfir kerfisáhættu, fjármálalegan stöðugleika og ábyrgð á samræmingu viðbragða.“

Ég vil spyrja hv. þingmann að lokum hvort ekki hefði verið skynsamlegra að hefja þessa vinnu fyrst áður en menn færu að hræra í því hvar þessar stofnanir yrðu (Forseti hringir.) og af því er virðist í svona hálfgerðri hringekju þar sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hlaupa úr einu ráðuneyti í annað eftir duttlungum ríkisstjórnarinnar.