140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vegna síðustu orða hv. þingmanns hlýtur maður að furða sig á því hvernig í ósköpunum þetta gengur fyrir sig í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Ég bið hv. þingmann um að lesa töflu með athugasemdum við þingsályktunartillöguna á bls. 5 þar sem fram kemur að þeir þættir sem hér er verið að tala um að setja inn í eitt öflugt efnahagsráðuneyti eru í einu og sama ráðuneytinu í þessum þremur löndum. Því er öðruvísi háttað á Íslandi og í Danmörku.

Hv. þingmaður furðar sig mjög á því sem hún kallar forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Hún telur að ekki eigi að sinna þessu máli, það eigi að leggja það til hliðar, það megi bíða og svo framvegis.

Ég ítreka enn einu sinni að hér er ekkert nýtt á ferð. Strax í maí 2009 lagði ríkisstjórnin fram áætlun um það hvernig stjórnskipun í Stjórnarráðinu yrði breytt. Það er ekki rétt sem fullyrt var í andsvörum áðan að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við smæð og vanmátt hinna mörgu og tilviljanakenndu ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, bæði í rannsóknarskýrslunni og í þingmannaskýrslunni. Við fórum einmitt yfir það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun. Þetta hefur sem sagt legið fyrir frá árinu 2009.

Á árinu 2010 lagði ríkisstjórnin fram tillögur um breytingar á skipan ráðuneyta. Velferðarráðuneyti var búið til, innanríkisráðuneyti líka, en því var frestað að sameina ráðuneyti og búa til þau ráðuneyti sem hér um ræðir, atvinnuvegaráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið, og vinna betur að undirbúningi. Á árinu 2011 var lagt fram frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands þar sem gert var ráð fyrir að tekið yrði upp allt annað ferli, allt annað form en tíðkast hafði hingað til við breytingar á ráðuneytum og ríkisstjórnin sjálf skipti með sér verkum. Skilið yrði á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds í þeim efnum. Um það náðist (Forseti hringir.) ekki samkomulag hér.

Mig langar til þess að biðja hv. þingmann um að rifja aðeins upp í hverju sú sátt var fólgin og hverjir stóðu að henni sem varð niðurstaðan og er nú í lögum nr. 115/2011.