140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vill þannig til að það var ég sem sat í þingmannanefndinni en ekki hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, svo ég veit mætavel hvað þar fór fram.

En bara til að leiðrétta það sem hv. þingmaður segir og telur mig misskilja þá er fjármálaráðuneytið í Danmörku eingöngu með fjármálaráðuneyti, og þannig er það líka í Noregi, Svíþjóð og í Finnlandi. (Gripið fram í.) Nei, vegna þess að í Danmörku er efnahags- og innanríkisráðuneyti (Gripið fram í.) og það stendur nákvæmlega í bókinni. Þau heita fjármálaráðuneyti og ekki minnst á það í skilgreiningu á heiti þeirra. Til dæmis eru í fjármálaráðuneytinu í Svíþjóð fjárlög ríkisins, fjármálapólitík, fjármálamarkaðir, ríkisfyrirtæki, alþjóðleg samvinna, sveitarstjórnarmál, úttektir er varða framtíðarráðstafanir í efnahagsmálum, spár og lykiltölur, skattar, happdrætti og fjárhættuspil. Þar er ekki minnst á seðlabanka, fjármálaeftirlit eða neitt annað þannig að með því hrek ég það sem hv. þingmaður sagði áðan.

Gerð var sátt þegar umræðan um breytingar á Stjórnarráðinu kom fram. Þá kom tillaga frá hv. þingmönnum (Gripið fram í.) Eygló Harðardóttur og Siv Friðleifsdóttur um að þingið fái til umræðu þingsályktunartillögu sem þessa. Það er rétt hjá hv. þingmanni. Það var samþykkt hér á þinginu, en það breytir því ekki að sú forgangsröðun sem núverandi ríkisstjórn varðandi þetta mál á vorþinginu breytir engu um þá tillögu. Hún segir meira um ríkisstjórnina og forgangsröðun hennar í málefnum sínum en nokkurn tímann um samþykktina sem þá var gerð.