140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sáttin var gerð þegar hv. þingmenn í stjórnarandstöðu voru ekki tilbúnir að fallast á að taka upp þessa norrænu, og ég vil segja evrópsku reglu þar sem ríkisstjórn skipar sjálf til verka innan sinna vébanda án afskipta þingsins. Þetta mun vera öðruvísi í Finnlandi en á hinum Norðurlöndunum er þetta svona og víðar. Þegar þessi sátt var gerð var ákveðið að hér skyldi tekið upp tiltekið verklag við þetta. Það er það verklag sem við fylgjum hér.

Í 2. gr. laga nr. 115/2011 segir, með leyfi forseta, um tillögu sem þessa:

„Tillagan skal lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem komi þegar til umræðu og afgreiðslu áður en forsetaúrskurður er gefinn út.“

Það er það sem við erum að gera núna.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) virðast ekki gera sér grein fyrir ábyrgð sinni á því verklagi sem ákveðið var með þessum lögum. Kannski hefur aldrei verið ætlunin að standa við það, „þegar til umræðu og afgreiðslu“. Það er ekki eins og þetta mál geti beðið (Gripið fram í.) vegna þess að þá er lagafyrirmælunum ekki fylgt. (Gripið fram í.) Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir. (Gripið fram í.) Mér þætti vænt um að fá að ljúka (Forseti hringir.) máli mínu í friði fyrir yður.