140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Forgangsröðun stjórnarandstöðunnar er skýr. Hún hefur ákveðið að vera á móti öllum málum hver svo sem þau eru. Það kom skýrt fram síðasta mánudagskvöld þegar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins tóku meira að segja mál sem varðar styrki til jarðhitaleitar og til hitaveitna á köldum svæðum … (Gripið fram í.) — Frú forseti, gæti ég fengið frið fyrir hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur?

Málið er að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, varaformaður þingflokks Framsóknarflokksins og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hröktust undan harðri gagnrýni sem kom fram í morgun á þetta vinnulag, á þessa afstöðu og þess vegna komu þeir á fund hér síðdegis og báðu um að fá að breyta um afstöðu og þeir væru tilbúnir allt í einu til að taka öll mál á dagskrá, m.a. raforkumálið, sem þeir voru ekki tilbúnir til að hleypa í gegn á mánudaginn var. Þetta er málið, frú forseti, þetta er forgangsröðun stjórnarandstöðunnar.