140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:22]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Eins og ég skildi umræðuna sem átti sér stað í morgun var uppi gagnrýni á það að umræður væru miklar um stjórnarráðsmálið og þær umræður yrðu til þess að tefja það að ýmis önnur mál á dagskrá þingsins kæmust til nefnda. Í fullum og einlægum samkomulagsvilja komu þingflokksformenn eða fulltrúar þingflokka Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks því á framfæri að það væri þeim ekkert á móti skapi og jafnvel bara hið besta mál ef þau mál sem áður hafði verið talað um að þyrftu að komast til nefnda yrðu afgreidd. Því var komið á framfæri við bæði forseta og þingflokksformenn stjórnarflokkanna.

En þegar á reyndi var áhugi þeirra á því að koma þessum málum til nefnda ekki meiri en svo að það kom ekki til greina (Forseti hringir.) nema áfram yrði hamast í þessu stjórnarráðsmáli og þá verður bara svo að vera.