140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:24]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er ódýrt að ræða samninga og forgangsröðun og segja að það sé einstakur vilji stjórnarandstöðunnar að gera hlutina svona og svona. Það er einfaldlega þannig, og það veit hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sem lét þau ummæli falla, að þegar komið er að þessum árstíma eru það stjórnarfrumvörp oftar en ekki og frumvörp stjórnarmeirihlutans sem sett eru á dagskrá vegna þess að það er ósk þeirra að þau mál fái framgang og fari til nefndar. Sum mál eru þannig, m.a. það mál sem hér er rætt, 4. dagskrármálið, að það þarf ekki að fara til nefndar. Þetta er þingsályktunartillaga, hún er búin að fara inn í þá meintu þinglegu meðferð sem hún átti að fara í og er hér til umræðu en öll hin málin eða flest þeirra, að undanskildu að ég held 15. málinu, eru mál sem stjórnarmeirihlutinn (Forseti hringir.) hefur óskað eftir að fari til nefndar en er nú að hafna vegna þess að þeir geta ekki sætt sig við það að andstaða er við 4. dagskrármálið (Forseti hringir.) og við ætlum ekki að gefa okkur í því, stjórnarandstöðuþingmenn. Það er algerlega ljóst.