140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að hlusta á þá stjórnarliða sem koma hingað upp. Hingað kemur hv. þm. Álfheiður Ingadóttir trekk í trekk og talar um mánudagskvöld og frumvarp sem hún fer varla ekki rétt með um hvað fjallar, það fjallar um húshitunarstyrki, um hitaveitu en hefur nánast ekkert með raforku að gera. Það mál var til umfjöllunar á mánudagskvöld daginn fyrir frídaginn 1. maí þegar flestir þingmenn voru farnir úr húsi og stjórnarmeirihlutinn með ofbeldi þvingaði inn fund með stuttum fyrirvara án þess að nokkur hefði hugmynd um. Það er ekkert skrýtið að menn hafi ekki viljað fara í öll þau mál sem þar voru á dagskrá, einfaldlega vegna þess að þingmenn voru út um allar koppagrundir, enda þurfa menn ekki að mæta á fyrirspurnafund á mánudegi og vissu ekki af þessum fundi.

Í dag er aftur á móti á dagskrá fullt af málum sem við vildum gjarnan (Gripið fram í.) að yrði hleypt áfram. Það væri skynsamlegra að ýta Stjórnarráðinu til hliðar og taka þá umræðu sem við erum hvort eð er í, á morgun og næstu daga. Það breytir engu, (Forseti hringir.) öðru en því að það væri dálítill annar bragur á þinginu ef við hefðum tekið þessi tíu mál, (Gripið fram í.) til viðbótar þeim fimm til sex málum sem við buðum að yrðu tekin inn, og það er ekki meint (Forseti hringir.) tilboð, hv. þm. Björn Valur Gíslason.