140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Björn Valur Gíslason og aðrir verði að átta sig á því að ágreiningurinn sem er um 4. dagskrármálið, Stjórnarráðið, hefur ekki verið leiddur til lykta eða leystur. Það sem fyrir okkur í stjórnarandstöðunni vakti var að bregðast við réttmætum ábendingum um að löng umræða um 4. dagskrármálið tefði fyrir afgreiðslu annarra mála, og út af fyrir sig töldum við það bara nokkuð rýmilegt og eðlilegt miðað við þær umræður sem fram fóru í morgun. En á hinn bóginn hljótum við að áskilja okkur rétt til að halda uppi þeim umræðum um 4. dagskrármálið, eða önnur mál sem síðar kunna að koma, sem þörf krefur.

Það var eitt sem kom fram í umræðum fyrr í dag hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem rétt er að gera ákveðna athugasemd við, það varðar umræður um húshitunarkostnaðinn á mánudagskvöld. Ég held að það sé misskilningur hjá henni að þó að rætt hafi verið (Forseti hringir.) um eitt tiltekið þingmál í rúmlega einn og hálfan tíma sé það málþóf eða verið að taka mál í gíslingu.