140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru nokkur áhugaverð atriði sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á í ræðu sinni. Eitt af þeim var það hvar stofnanir og verkefni eiga nákvæmlega að vera vistuð. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu er harla óljóst, svo að ekki sé meira sagt, hvar einstök verkefni sem undir þessi ráðuneyti heyra eiga að lenda. Hann nefndi nokkur dæmi um það og meðal þess sem þar kom fyrir voru málefni stofnana á fjármálamarkaði.

Það er kannski sérstakt athugunarefni að farið sé í þessa breytingu með þeim hætti sem ætlunin er að gera varðandi efnahagsmál og fjármálaráðuneyti þegar ljóst er að sú breyting eða breytingartillaga á sér allt annan og skemmri aðdraganda en aðrar þær hugmyndir sem hér eru til umræðu, sem vissulega hafa komið upp í umræðunni á þingi undanfarin tvö til þrjú ár. En þetta með sameiningu efnahagsmála og fjármálaráðuneytis er eitthvað sem dettur inn í þessa umræðu nú í vetur, sennilega í desember eða janúar, að því er virðist miðað við gögn málsins.

Ég vildi spyrja hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson hvað honum finnist um það að nú heyrir starfsemi mikilvægra stofnana á borð við Seðlabanka og Fjármálaeftirlit til þessara ráðuneyta. Nú er í gangi á vegum efnahags- og viðskiptaráðherra, raunar sett af stað af fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, töluvert viðamikil greiningarvinna á stöðu og stofnanakerfi á þessu sviði. Ég spyr hv. þingmann: Hvað finnst honum um það að verið sé að fara í þessar breytingar áður en þeirri vinnu er lokið og áður en sú nefnd skilar af sér?