140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það kristallast kannski allt í lokaorðum hans að þessi vinnubrögð hafi farið af stað án þess að farið hefði verið í þá greiningarvinnu sem hv. þm. Árni Páll Árnason benti réttilega á að æskilegt hefði verið að fara í áður.

Nú hafa margir hv. stjórnarliðar reynt að finna rök fyrir því að fara í þessa vegferð, sem er náttúrlega óskiljanlegt í lok kjörtímabils og í ósátt við stjórnarandstöðuna og einstaka stjórnarþingmenn, og ég spyr hvort hv. þingmaður geti tekið undir þau sjónarmið, sem hafa komið fram, að þetta sé til að styrkja og bæta stjórnsýsluna. Það er auðvitað markmiðið, það er fallegt, en mín skoðun er sú að vinnubrögðin séu öfugt við það sem verið er að gera. Þetta setur líka mikla óvissu inn í Stjórnarráðið, inn í ráðuneytin, og það er heldur ekkert víst að næsta ríkisstjórn, sem kemur í síðasta lagi eftir tæpt ár, vilji hafa Stjórnarráðið skipað með sama hætti.