140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt mjög áhugaverð. Í ræðu sinni fór hv. þingmaður vel yfir hversu illa undirbúið og ruglingslegt ferlið væri varðandi stofnanir sem heyra undir þau ráðuneyti sem verið er að breyta og hringla með, hversu óskýr verkaskiptingin væri og óljóst hvar forræðið yfir þessum stofnunum og verkefnum þeirra yrði í framtíðinni. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega Siglingamálastofnun og vandamálin varðandi hvar vista ætti norðurslóðaverkefnin, hvort þau ættu allt í einu að eiga heima undir utanríkisráðuneyti, ef ég skildi hv. þingmann rétt.

Það minnti mig á annað mál sem var pólitískt áherslumál annars ríkisstjórnarflokksins eins og þetta mál. Það var niðurlagning Varnarmálastofnunar og var haldið af stað í þann leiðangur með strax á fyrsta ári þessarar ríkisstjórnar. Ég og fleiri þingmenn gagnrýndum það verklag að stofnunin skyldi strax lögð niður með dynk og stæl og miklum hvelli og síðan tóku menn að undirbúa hvert þau blessuð verkefni sem stofnunin hafði á sínu borði ættu að fara. Í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra um daginn var einmitt verið að ræða að það tímabundna samkomulag sem enn er á milli innanríkis- og utanríkisráðuneytanna hefði gengið ákaflega vel.

Því vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að svo virðist vera í þessu máli sem og í svo mörgum að það snúi allt á hvolf, að slík séu vinnubrögðin hjá stjórnarflokkunum. Getur þingmaðurinn verið mér sammála um að það hefði kannski fyrst átt að byrja á því að hugsa um hvert þessi verkefni ættu að fara og ráðast svo (Forseti hringir.) í breytingarnar?