140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hún var ekki til sóma sú umræða sem hófst á þingfundi í morgun og þær ásakanir sem gengu á víxl um málþóf og ómálefnalega málsmeðferð. Auðvitað blasir það við öllum hvers vegna tafir eru á þingstörfum. Það er hverjum manni ljóst að það liggur í því hversu vanbúin málin eru sem ríkisstjórnin raðar hingað inn; tugur mála á síðustu metrum þessa vorþings og mörg af þeim ansi umfangsmikil.

Til að greiða fyrir þessum málum og svara þessari gagnrýni af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni gerðum við ríkisstjórnarflokkunum tilboð í dag, eins og fram hefur komið, um að fresta umræðu um þetta mál og afgreiða ein 15 mál til nefnda. En það sýnir allan samningsvilja ríkisstjórnarflokkanna við okkur, um það hvernig málum verður háttað og um forgangsröðun mála, að því tilboði var hafnað. Allt þeirra tal, þingmanna ríkisstjórnarflokkanna, er því innihaldslaust þegar þeir gagnrýna okkur fyrir málþóf í þessum málum. Við höfum boðið að gera breytingar á og koma málum til nefnda þannig að þau mál sem að okkar mati eru mikilvæg og mikilvægari en þetta, og ekki er eins mikil gagnrýni á, fái eðlilega meðferð og fari í vinnu til þingnefnda.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði í morgun að vel og fagmannlega hefði verið unnið í því máli sem við ræðum nú. Það er náttúrlega alveg ótrúlegt að komast að þeirri niðurstöðu þegar málið er skoðað. Lögð var fram skýrsla frá nefnd sem starfaði í byrjun ársins. Þar kom fram að rætt hefði verið við 19 hagsmunaaðila á 15 fundum og það taldi hv. þm. Álfheiður Ingadóttir alveg nóg. Þingnefndir þurfa með öðrum orðum ekki lengur að kalla fyrir sig umsagnaraðila í málum, það er nóg að einhverjar nefndir sem vinna að greinargerðum úti í bæ kalli til umsagnaraðila og þingnefndir láti það duga. Hér er um alveg nýja mælikvarða að ræða í sjálfstæðum störfum þingnefnda.

Ekki var tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram svo sterk frá mörgum aðilum sem komu fyrir þessa nefnd, t.d. aðilum vinnumarkaðarins og öðrum hagsmunaaðilum. Við skiljum áhyggjur þeirra og sú þingnefnd sem hefur haft með þetta mál að gera hér í þinginu sá enga ástæðu til að leita umsagna þeirra eða afla sér sjálfstæðra upplýsinga.

Hér er um að ræða eitt af gælumálum hæstv. forsætisráðherra, mál sem ekki er tímabært. Það er komið fram þegar tiltölulega stutt er til kosninga, lítið er eftir af þessu kjörtímabili. Kosningar verða í síðasta lagi eftir eitt ár. Breytingar munu ekki taka gildi fyrr en á haustdögum og munu því vera í um hálft ár í gangi áður en ný ríkisstjórn tekur við völdum og þarf kannski að hefja breytingar að nýju. Illa er farið með skattfé borgaranna í þessu. Áætlað er að þessar breytingar kosti um 250 millj. kr., breytingar sem geta orðið til stutts tíma, og þá má nefna að við heyrum hugmyndir um að halda skoðanakönnun í haust um önnur mál, stjórnarskrármálið, það eru aðrar 250 millj. kr. þannig að hér erum við komin bara í 500 millj. kr. aukakostnað á þessu ári á sama tíma og við þurfum að vera að skera niður í heilbrigðismálum og brýnum velferðarmálum samfélagsins.

Það er mikið ósætti í stjórnarflokkunum með þetta mál. Það hefur komið fram að tveir fyrrverandi ráðherrar, núverandi þingmenn stjórnarflokkanna, munu ekki styðja málið og alveg ljóst að ríkisstjórnin þarf að reiða sig á stuðning Hreyfingarinnar sem er ekkert orðin annað en angi af ríkisstjórninni og hefur greinilega samið um að halda lífi í henni.

Það fylgir þessu mikil óvissa fyrir starfsfólk ráðuneyta og sú óvissa er mjög slæm, ekki síst á álagstímum eins og núna. Vinnubrögðin eru því, virðulegi forseti, ámælisverð. Á sama tíma og það fyrirheit hefur verið gefið af hálfu þingsins að bæta vinnubrögð vitna stjórnarflokkarnir til þess að vinnubrögð af þessu tagi hafi verið ástunduð hér áður við frumvörp, réttlæta þessa vinnu sína og vinnuaðferðir með því en skeyta ekkert um þau fyrirheit um bætt vinnubrögð sem gefin hafa verið.

Auðvitað er nauðsynlegt fyrir þingnefnd að fá umsagnir og gesti á fundi til að kynna sér mál og geta tekið upplýstar ákvarðanir um mál. Slíkt hefur ekki verið viðhaft í þessu máli. Þetta mál kom til umræðu á þingi, var lagt fram 30. mars sl. og tekið til umræðu 17. apríl. Þann 24., 26. og 27. apríl fundaði nefndin með fáum gestum að kröfu minni hlutans en meiri hlutinn taldi ekki tilefni til að senda málið almennt til umsagnar. Málið var svo afgreitt frá nefndinni óbreytt 27. apríl.

Það er ljóst að miklar breytingar munu falla til með þessari þingsályktunartillögu, t.d. undir hvaða ráðuneyti verkefni og stofnanir munu falla. Það kemur skýrt fram í gögnum málsins að þar er að finna ráðagerðir um þessa verkaskiptingu en vistun verkefna og verkaskipting mun ekki hefjast fyrr en þingsályktunartillagan hefur verið afgreidd. Menn hafa því ekkert fast land undir fótum til að vinna þetta mál áfram.

Í þessu máli verða gerðar þær breytingar að ákveðnir þættir munu færast yfir til svokallaðs auðlindaráðuneytis og það kallar á mjög ákveðna samvinnu auðlindaráðuneytis og atvinnuráðuneytis. Það er viðbúið að þetta kalli á togstreitu sem við höfum svo sem séð gerast í öðrum málum. Ég vil nefna rammaáætlun sem dæmi. Þar höfum við horft á þennan ágreining verða milli ráðherra sem endar síðan í einhverri málamiðlun sem er algerlega ónothæf. Það er eðlilegt að um umhverfismál sé einhver rammi sem sé skýr og viðkomandi ráðuneyti vinni síðan innan þess ramma.

Maður veltir því fyrir sér hvort sameining sé lausnarorðið þegar til dæmis kemur að sameiningu atvinnuvegaráðuneytanna í eitt ráðuneyti. Þá veltir maður því fyrir sér af hverju þessu var skipt upp á sínum tíma. Það er ljóst að þetta mun kalla á mikla togstreitu. Á sínum tíma var verið að reyna að auka fjölbreytni í atvinnulífi, við vorum að fara út í aukna nýtingu á orkunni okkar, og þess vegna var því atvinnuvegaráðuneyti sem þá starfaði skipt upp. Við erum með tiltölulega einfalt atvinnuumhverfi. Við erum með atvinnuumhverfi sem byggist fyrst og fremst á nýtingu náttúruauðlinda, tveimur höfuðgreinum sem skipta mestu máli, sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði.

Orkunýting og stóriðja hafa verið að ryðja sér braut og skipta orðið verulega miklu máli og sú barátta hefur raunar staðið frá árinu 1960 þegar orðið stóriðja kom fyrst inn í atvinnuumræðu okkar. Það hafa öfl barist á móti þessari þróun, þau sömu öfl og eru að berjast á móti þessum málum í dag með þeim árangri sem við sjáum birtast í rammaáætlun. Það má segja að sagan sé að því leyti að endurtaka sig.

Gallarnir við þingsályktunartillöguna eru augljósir. Við sjáum að sameinað ráðuneyti mun lengja boðleiðir til ráðherra. Það hefur verið styrkur atvinnulífs okkar hversu stuttar boðleiðir hafa verið til ráðherra, hversu nátengdir ráðherrar hafa getað verið þessum höfuðatvinnugreinum okkar. Þrátt fyrir áætlun um aukna fjölbreytni í atvinnulífi okkar þá verða þessar tvær höfuðatvinnugreinar ráðandi hér. Sjávarútvegur á eftir að eflast. Við sjáum mörg tækifæri til að efla stöðu okkar í sjávarútvegi. Þrátt fyrir þær aðgerðir sem stjórnvöld eru með á prjónunum hefur maður enga trú á því að það nái í gegn og ef svo gerist þá verður því breytt snarlega. Nýting orkuauðlindanna er að verða grundvallaratriði í að endurheimta þau skertu lífskjör sem við höfum orðið að búa við frá hruni. Innan seilingar er síðan möguleg vinnsla olíuauðlinda fyrir norðan land. Það kristallast því í þessu hversu rangt það er að fara að setja þetta allt saman, þessi stóru grundvallarmál, á hendi eins ráðherra. Það er fullt starf fyrir einn mann að sinna hvoru ráðuneyti fyrir sig.

Við sáum það um daginn í þinginu, þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra var í Kanada, að sjálfsögðu með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með sér, sem gat þá á sama tíma ekki mælt fyrir stærstu frumvörpum sínum í þinginu. Þessa skörun munum við væntanlega sjá mjög ítrekað ef við verðum komnir með svo viðamikil mál á eina hendi. Það er líka hætta á því að sérþekking innan ráðuneytanna minnki og taki langan tíma að vinna það til baka. Kostir eru aftur á móti ekki augljósir en þessir ókostir blasa við. Á sama tíma munum við skapa mikla togstreitu, eins og ég kom inn á áðan, um vernd og nýtingu sem fer alls ekki saman, þ.e. að hafa slíkt samráðsferli sem hluta af okkar stjórnsýslu. Þetta þarf að gerast innan miklu fastari ramma.

Dæmi um þetta eru hvalveiðar. Það er eitthvert skýrasta dæmið um það hvernig verndunarráðuneyti misnotar aðstöðu sína. Árið 1986 var sett á hvalveiðibann hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu sem átti síðan að falla úr gildi árið 1990 og við erum enn með þetta bann í gangi núna 27 árum síðar þó að við Íslendingar séum ekki bundnir af því og getum stundað okkar hvalveiðar. En ástæðan er kannski fyrst og fremst sú að þessi atvinnugrein, sem klárlega á að falla undir nýtingarráðuneyti, heyrir orðið í flestum löndum Evrópusambandsins og mjög víða um heim undir umhverfisráðuneytið og þess vegna er staðan eins og hún er. Og að við skulum ætla að fara að innleiða hér reglur sem kalla á slíka togstreitu, sem birtist okkur í rammaáætlun, er auðvitað mjög bagalegt. Stefnumörkunin þarf sem sagt að vera hjá einu ráðuneyti, annars getur þetta raskað jafnvægi á milli sjónarmiða nýtingar og verndar. Nýtingarsjónarmið hljóta að jafnaði að vega þyngra hjá atvinnuvegaráðuneyti en verndarsjónarmið hjá umhverfisráðuneyti. Með því að færa veigamikil verkefni í auðlindanýtingu til umhverfisráðuneytis er ótvírætt hætta á að verndarsjónarmiðin muni vega þyngra en nýtingarsjónarmiðin eins og ég fór yfir í hvalveiðimálunum.

Ég vil benda á það, virðulegi forseti, að eðlilegt væri að hæstv. forsætisráðherra, sem hefur forræði á þessu máli, væri við þennan fund. Hún hefur verið hér að hluta til í dag en ekki á seinni hluta þessa fundar. Ég vil óska eftir því við virðulegan forseta að þeim óskum verði komið á framfæri við hæstv. forsætisráðherra að hún verði á þessum fundi og hlusti á rökstuðning okkar sem erum að tala gegn þessu máli. Þeir láta sig vanta stjórnarliðarnir sem eru stuðningsmenn þessa máls.

Það hafa verið höfð mikil lofsorð um það þegar efnahags- og viðskiptaráðuneytið var stofnað og með ólíkindum að við skulum vera að horfa á breytingar svo stuttu eftir að sú breyting var gerð. Það var eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar að stofna efnahags- og viðskiptaráðuneyti sem var í samræmi við stjórnarsáttmálann vorið 2009. Engar hugmyndir um þær breytingar sem hér er verið að gera voru nefndar í tengslum við breytingar á stjórnarráðslögum 2010 og 2011 og nú síðast í desember kom fram í máli forsætisráðherra að ekki væru nein áform uppi um þær breytingar sem nú eru á döfinni. Tillagan virðist því hafa komist á dagskrá ríkisstjórnar í tengslum við uppstokkun í ráðherrahópnum um áramótin. Þá var það sem forsætisráðherra fól þessum þriggja manna starfshópi að meta kosti og galla þessarar sameiningar og hann skilaði af sér niðurstöðum í febrúar.

Við sjáum því hversu mikill hraði og vanbúnaður er á þessu máli. Ekki er hægt að meta málið á annan veg en þann að það sé algerlega vanbúið og þær fullyrðingar hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í morgun, að málið væri vel og fagmannlega unnið og farið að ýtrustu reglum, standast því engan veginn. Þetta stenst enga skoðun og þetta er kannski megingagnrýni okkar í stjórnarandstöðunni við þetta mál og sýnir hve lítill samningsvilji er hjá ríkisstjórninni um forgangsröðun mála.

Við viljum að mál sem ekki eru undirbúin betur en þetta verði lögð til hliðar. Við sjáum þetta gerast í frumvarpi sjávarútvegsráðherra um fiskveiðistjórn og veiðigjöld, mál sem eru algerlega vanbúin, hafa fengið algera falleinkunn hjá umsagnaraðilum. Nefnd sérfræðinga sem atvinnuveganefnd fékk til að gera úttekt á málinu skilaði af sér skýrslu í gær og gaf þessu falleinkunn og benti á að grundvallarvillur væru í því frumvarpi. Slík mál teljum við að ríkisstjórnin þurfi að taka til baka alveg eins og þetta mál og fleiri mál sem eru algerlega vanbúin. Fyrst og fremst er ástæða þessa sú óeining sem er innan stjórnarflokkanna, sem ég kom inn á áðan.

Ef þetta mál er skoðað, virðulegi forseti, er niðurstaðan sú að málið sé engan veginn tímabært og engan veginn fullreifað og fullunnið. Ekki er komin löng reynsla á breytingar sem gerðar hafa verið á Stjórnarráðinu á þessu kjörtímabili og hefði verið eðlilegt að meta þær breytingar áður en farið er í frekari breytingar og það jafnumfangsmiklar og hér eru boðaðar. Þetta mál er ekki tímabært vegna þess hve stutt er til kosninga. Það er verið að breyta fyrir mjög skamman tíma og fara í mjög kostnaðarsamar breytingar. Það má reikna með því, eins og ég kom inn á áðan, að strax að kosningum loknum 2013 þurfi að fara aftur í breytingar þar sem þau stjórnvöld sem þá taka við verði ekki sátt við þessa niðurstöðu sem hér er lögð til.

Mikil ósamstaða er í ríkisstjórnarflokkunum, það þarf að treysta á Hreyfinguna og mögulega á þingmenn utan flokka til að koma þessu máli í gegn. Það er mikil andstaða hagsmunaaðila og aðila vinnumarkaðarins við málið og burðargreinar atvinnulífs hafa færri málsvara við ríkisstjórnarborðið. Þó að segja megi að það sé í fullu samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum þá er það algerlega óviðunandi.