140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:22]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það veldur okkur vissulega áhyggjum, okkur sem erum áfram um að nýta hvalastofna hér við land eins og nú er gert, hvernig þessum málum verður skipað í framtíðinni. Hvalveiðar í heiminum eru að mínu mati það mál sem umhverfis- og verndarsinnar hafa náð hvað mestum tökum á. Það er ekki í neinu samræmi við stofnstærðir eða vísindalega niðurstöðu á nýtingarhæfni stofna að hvalveiðar skulu vera bannaðar enn þá 27 árum eftir að bannið tók gildi. Það er ekki í neinum takti við það, enda snýst umræðan á fundum Alþjóðahvalveiðiráðsins ekkert lengur um afrakstursgetu stofna eða nýtingu heldur um allt aðra hluti. Og það eru vinnubrögð umhverfisverndarsinna sem við sjáum verða að veruleika.

Við sjáum þetta gerast núna í rammaáætlun. Það þarf að skoða betur og rannsaka betur. Nú er búið að setja fullt af okkar vænlegustu virkjunarkostum í biðflokk til að rannsaka og skoða. Það er auðvitað til þess að sá tími líði sem umhverfismatið gildir, þá þarf að fara í nýtt umhverfismat. Þetta eru vinnubrögð þessara aðila. Ég hef miklar áhyggjur af því að málefni hvalveiða verði vistuð í umhverfisráðuneytinu eins og gerist í langflestum löndum, ef ekki öllum, í Evrópusambandinu og víða um heim. Þess vegna er komið fyrir því máli eins og raun ber vitni.

Því nefni ég þetta hér að það kemur augljóslega togstreita upp á milli ráðuneyta sem fara með nýtingarmál, og vilja nýta auðlindir af skynsemi, og ráðuneyta umhverfismála sem horfa þá frekar á málin (Forseti hringir.) út frá verndarsjónarmiðum. Þarna þarf ramminn að vera skýr þannig að eðlileg nýting á náttúruauðlindum geti átt sér stað.