140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:26]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það læðist að manni sá grunur að brottvikning Tómasar H. Heiðars, talsmanns okkar á fundum Alþjóðahvalveiðiráðsins og oddvita sendinefndar okkar þar, hafi með pólitík að gera. Fram kom hörð gagnrýni hjá mörgum stjórnarliðum og andstæðingum hvalveiða eftir síðasta ársfund Alþjóðahvalveiðiráðsins, í júní eða júlí á síðasta ári, þar sem hann tók þátt í þeirri aðgerð með ákveðnum þjóðum sem styðja hvalveiðar að ganga úr salnum í mótmælaskyni. Fyrir það var hann gagnrýndur harðlega á nefndarfundum í utanríkismálanefnd og á sameiginlegum fundum utanríkismála- og atvinnuveganefndar. Og sá grunur læðist að manni að þetta hafi eitthvað með það mál að gera.

Það er alveg hræðileg staða sem samfélag okkar er í verandi með þessa ríkisstjórn sem annars vegar lætur allt yfir sig ganga — annar stjórnarflokkurinn lætur allt ganga yfir sig vegna þess að við erum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, gefur eftir í öllum málaflokkum á móti því. Og síðan erum við með Vinstri græna sem komast upp með það að stöðva alla sókn og bata í lífskjörum þjóðarinnar með því að standa í vegi fyrir grundvallarframkvæmdum sem þurfa að fara af stað. Það er engin önnur leið fyrir þessa þjóð út úr því ástandi sem hún er í en að nýta náttúruauðlindir sínar með öflugri hætti en gert hefur verið.

Sýnt hefur verið fram á það í skýrslum sem lagðar hafa verið fram, eins og skýrslunni um samræmda orkustefnu fyrir Ísland, framkvæmdaskýrslu Landsvirkjunar, hvers konar gríðarlegur lífskjarabati yrði á nokkrum árum ef við færum í alvöruframkvæmdir á þessum vettvangi samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem Landsvirkjun hefur lagt fram. Það skiptir þjóðfélagið öllu máli. Það er þess vegna mikið til í því sem hv. formaður Framsóknarflokksins sagði um daginn (Forseti hringir.) að tjónið af getuleysi ríkisstjórnarinnar er orðið miklu meira en af hruninu sjálfu.