140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eftir að ég tók sæti á Alþingi hafa margir fyrrverandi forsetar þingsins rætt við mig og verið undrandi á því hvernig stjórn þingsins er háttað hjá þeim fulltrúum sem sitja við þetta ríkisstjórnarborð núna því að eins og við vitum kemur forseti Alþingis úr Samfylkingunni.

Á árum áður tíðkaðist það að ef þingmenn fóru fram á að ráðherrar væru viðstaddir þá umræðu sem í gangi var í þinginu hverju sinni og heyrði undir málaflokk þeirra var fundi frestað og ráðherrar beðnir um að koma í þingsal. Það er því sanngjörn krafa sem við leggjum fram að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sitji í þessum þingsal, svari spurningum sem þingmenn hafa og sem beint er til hennar og að jafnframt verði upplýst hvort hún sé væntanleg í húsið. Komið hefur fram hjá hæstv. forseta að búið er að koma boðum til hæstv. forsætisráðherra. Hvar er forsætisráðherra stödd? Er hún væntanleg, frú forseti, (Forseti hringir.) og verður fundi frestað þar til hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) kemur í salinn?