140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef hingað til ekki þurft neina sérstaka aðstoð við að ákveða hvaða spurningum ég beini til þeirra sem ég ræði við í ræðustól, en þakka engu að síður fyrir þessar ágætu tillögur. Ég leit svo á að það væri nokkuð sjálfsagt að þær atvinnugreinar sem stundaðar eru hér á landi heyri undir atvinnuvegaráðuneyti, ef það er til. Þetta var ekki meginspurning hjá mér í minni ræðu, en engu að síður var ég að velta þessu fyrir mér í umræðum í matarhléi við þá hv. þingmenn sem hafa sérstakan áhuga á hvalveiðum. Þetta er auðvitað eitthvað sem þingmenn hafa verið að spyrja eftir og ég geri ráð fyrir að aðstoðarmenn hæstv. forsætisráðherra hafi tekið niður þær vangaveltur hv. þingmanna. En að öðru leyti tel ég engu skila fyrir umræðuna að við tvær, ég og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, séum að ræða það hér hvernig þessu verði háttað.