140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held við græðum afskaplega lítið á því að togast á um hver hafi ástundað lélegustu vinnubrögðin í gegnum tíðina í þinginu. Það eina sem við eigum að gera að mínu mati er að horfa á hvað viljum við gera til að bæta okkur. Við getum gert það. Mér þykir mjög leitt ef vinnubrögð ríkisstjórnarinnar valda hv. þingmanni depurð, (Gripið fram í.) það er afskaplega dapurt og leitt, en auðvitað eigum við að vera bjartsýn, frú forseti, og reyna að horfa fram á veginn og horfa til þeirrar leiðsagnar og draga lærdóma af rannsóknarskýrslu Alþingis og því sem bent er á þar. Og ég hélt að við værum komin lengra. Kannski skil ég einfaldlega ekki tilganginn með þessum breytingum. Kannski lítur ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir einfaldlega svo á að hún þurfi ekkert að útskýra til hvers þessar breytingar eigi að leiða. Mér finnst það ekki fullnægjandi.