140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði mér ekki að rífast um krónur og aura í þessu sambandi við hv. þingmann. Það sem ég er að benda á er að með þessu orðalagi er meiri hlutinn að viðurkenna að við vitum ekki hvað við erum að samþykkja. Menn vita ekki hvaða leið verður farin. Það stendur til að breyta einhverju, það liggur fyrir hvað nýju ráðuneytin eiga að heita, en að öðru leyti hafa menn verið að fabúlera hver í sína átt um hver eigi nákvæmlega að verða niðurstaðan í þessu máli. Það er það sem ég er að gagnrýna.

Ég neita að láta bjóða mér það að ég megi ekki vera bjartsýn um að hægt sé að bæta vinnuaðferðir í þinginu. Ég fullyrði að það er hægt. Það er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Allar góðar breytingar og fyrirætlanir og öll góð ferðalög hefjast á einu skrefi. Ekkert okkar hér er of stórt til að leggja í þann leiðangur. Við samþykktum það öll, 63:0 í þinginu, að gera það. Við skulum fara að halda af stað.