140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér var nefnt að ekkert væri getið um það í þessari þingsályktunartillögu hvernig færi með stofnanir sem heyra undir einstök ráðuneyti. Ég vil því nefna að það er náttúrlega ljóst að ef stofnanir verða færðar til á milli ráðuneyta, t.d. ef færa ætti Hafrannsóknastofnun frá atvinnuvegaráðuneytinu eða eitthvað slíkt, þyrfti að gera það með lögum. Þá kemur það fram. Þá er líka alveg ljóst og hefur verið alveg ljóst í þeirri meðferð sem ákveðin hefur verið varðandi breytingar á Stjórnarráðinu, að það er framkvæmdarvaldsins að leggja það til og þingið ákveður ef eitthvað á að breyta því. Ef ekki á að breyta þarf ekki skrifa lög eða leggja fram frumvörp um það.