140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:14]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta ágæta andsvar. Við sjáum að í umræðunni hafa margir þingmenn eytt meiri hlutanum af ræðutíma sínum í að ræða og spyrja um hvaða stofnanir eigi að fara hvert o.s.frv. Það er vegna þess að menn átta sig ekki á til hvaða breytinga þetta mál muni leiða. Hver er hugsunin og hver er stefnan? Það er einfaldlega það sem mér finnst vera að. Af hverju liggur það ekki betur og ljóst fyrir áður en mér og öllum þingheimi er gert að taka afstöðu til þessa máls? Ég geri mér grein fyrir því að ef menn ætla að færa til stofnanir þá þarf að gera það með sérstökum lögum. En ef halda á af stað í miklar breytingar, af hverju gera menn sér ekki grein fyrir því og eru tilbúnir að leggja á borðið hvert þeir nákvæmlega eru að fara? Af hverju liggur það ekki fyrir?