140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst það koma úr hörðustu átt hjá Ragnheiði Elínu Árnadóttur að tala um að sú sem hér stendur vilji ekki greiða fyrir þingstörfum. Ég held að hv. þingmaður ætti að líta í eigin barm. Hv. þingmaður hefur hagað sér þannig í gegnum tíðina, gegnum þingstörfin, að það er ekki hægt að semja við hv. þingmann. Hún vill helst hafa dagskrárvaldið í sínum höndum þó að hún sé í stjórnarandstöðu. (Gripið fram í.)

Síðan er það svo, af því að hv. þingmaður er að vísa til þeirra mála sem eru á dagskrá og við höfum rutt öllum þeim málum úr vegi til að hafa þetta mál á dagskrá, að það er ekki hægt að semja við hv. þingmann. Þess vegna eru málin eins og þau eru stödd að þau komast ekki á dagskrá. Í dag var reynt að semja við hv. þingmann og stjórnarandstöðuna, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, um að málin kæmust á dagskrá en um leið yrði samið um hvenær umræðunni um málið sem er á dagskrá — og hefur verið á dagskrá í ætli það séu ekki svona 20 klukkustundir — lyki. Ekki var hægt að fá svör við því frá hv. þingmanni vegna þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og að hluta til Framsóknarflokksins eru staðráðnir í að reyna að ýta málinu til hliðar svo að það verði ekki afgreitt sem og stjórnarskrármálinu sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar kalla eftir að verði klárað í þinginu.

Hv. þingmaður ætti því að líta í eigin barm þegar hún talar um að sú sem hér stendur greiði ekki fyrir þingstörfum. Við erum tilbúin að taka þessi mál strax á dagskrá ef hægt er að semja við hv. þingmann og formenn stjórnarandstöðuflokkanna um það hvenær þessu máli ljúki. Mér finnst það vera sanngjörn og eðlileg krafa.