140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rangt hjá hæstv. forsætisráðherra að sú sem hér stendur haldi eða hafi dagskrárvaldið á þinginu. Ef svo væri væri þetta mál ekki á dagskrá. Það er algjörlega þannig að sú sem hér stendur er í stjórnarandstöðu og þarf að lúta því að hér er ríkisstjórn með kolranga forgangsröðun. Og það er einfaldlega rangt sem hæstv. forsætisráðherra vogar sér að halda fram að sú sem hér stendur geti ekki náð samningum. Ég veit ekki betur en að tekist hafi samningar margoft um þinglok þar sem ég hef verið í forustu fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins þannig að ég held að það sé röng fullyrðing.

Hvað það varðar að líta í eigin barm vísa ég því til föðurhúsanna. Það er rétt að við vorum ekki tilbúin til að semja um lok þessarar umræðu en það er nákvæmlega það sem er ásteytingarsteinninn. Við fórum hins vegar í fullri einlægni fram með þá tillögu sem hér var vegna þess að við erum saman í þessum báti á þinginu. Hér er starfsáætlun sem ég ber virðingu fyrir og samkvæmt henni eru nefndadagar í næstu viku og það stóð upp úr öðrum hverjum manni hér í morgun að þessi mál kæmust ekki til nefnda. Það var þess vegna, jafnvel þó að mér sé slétt sama um þessi mál, hvort þau verða að lögum eða ályktunum þingsins eða ekki, mér er alveg sama um það. En forgangsröð ríkisstjórnarinnar birtist væntanlega í þeim málum sem hún setur á dagskrá og þess vegna hefði ég haldið að hæstv. forsætisráðherra tæki því fegins hendi. Spurningin er því sú af því að því hefur ekki verið svarað: Af hverju þarf þetta mál að klárast núna fyrir helgi? (Forseti hringir.) Er eitthvert tilefni til þess? Hér verða þingfundir eftir helgi. (Forseti hringir.) Ég vissi ekki til þess að þetta væri síðasti þingfundurinn sem stefnt væri að í þessari viku.