140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir ræðu hennar. Ég var búin að undirbúa nokkrar spurningar fyrir hana en ég er eiginlega svo undrandi eftir þau andsvör sem komu hér fram og ég er steinhissa á framgöngu hæstv. forsætisráðherra hér.

Þegar virðulegur forsætisráðherra var þingmaður á árum áður talaði hún einu sinni í ellefu klukkustundir eins og fram hefur komið — ellefu klukkustundir. Ja, það er fljótt að snjóa yfir fortíðina hjá sumum í þessu húsi enda kannski ekki nema von að eitthvað gleymist þegar fólk er bráðum búið að vera 40 ár á þingi. En ég hélt að það mundi nú enginn gleyma því afreki að vera ókrýndur málsvari stjórnarandstöðu og tala hér í einum rykk í ellefu klukkustundir, þetta er rúmur vinnudagur hjá venjulegum einstaklingi. En það er greinilegt að nú er hlaupið mikið stress í umræðuna fyrst hæstv. forsætisráðherra kemur nánast kjökrandi í þennan ræðustól og kvartar yfir óbilgirni stjórnarandstöðunnar, þ.e. Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra er búin að tryggja sér stuðning Hreyfingarinnar við þetta mál, sem situr nú í skjóli ríkisstjórnarinnar án ráðuneytis — án ráðuneytis, við skulum átta okkur á því. Að hæstv. forsætisráðherra skuli þurfa að labba hér á milli í hverju einasta máli og finna sér stuðningsmann úr stjórnarandstöðunni til að koma málum í gegn segir meira um hæstv. ríkisstjórn en nokkuð annað.

Mig langar að beina spurningu til hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur: Hver voru nákvæmlega svörin hjá ríkisstjórnarflokkunum þegar tilboðið kom fram í dag frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum um að taka þetta mál af dagskrá og hleypa næstu 15 málum að og afgreiða þau til nefndar? (Forseti hringir.) Hver voru svörin?