140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það séu of miklar væntingar bundnar við að hægt sé að starfa með þessari ríkisstjórn í friði vegna þess að hæstv. verkstjóri ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, fer fram með öll mál í ófriði.

Hér í morgun sýndi hún sitt rétta andlit, steytandi hnefann framan í þingmenn og hótaði því að hér yrði sumarþing. Og hverjum er ekki sama, hæstv. forsætisráðherra, þó að við verðum hér í sumar? Hæstv. forsætisráðherra hefur tileinkað sér þann stjórnunarstíl að skella hurðum og steyta hnefa og hóta. En hótanir hæstv. forsætisráðherra virka eins og vatn á gæs.

Við þingmenn höfum, eftir að ég var kosin á þing, staðið hér á sumarþingi, staðið hér á þingi milli jóla og nýárs. Það sýnir nú hvað verkstjórnin er léleg hjá þessari ríkisstjórn að við skyldum þurfa að vera hér okkar fyrsta þingvetur á milli jóla og nýárs. Það hafði ekki verið þing milli jóla og nýárs síðan 1994, en minn fyrsta þingvetur var þessi snilldar norræna velferðarríkisstjórn komin til starfa og stjórnaði þinginu af því að forseti þingsins var úr Samfylkingunni.

Svona eru nú málin byggð upp hér og það er því miður engin hótun að segja að það verði þing í sumar, hæstv. forsætisráðherra. Ég hef lýst mig reiðubúna til að starfa á hverjum einasta degi fram að kosningum, sem verða vonandi mjög bráðlega, og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hér verði þing í allt sumar því að þá köllum við þingmenn einfaldlega inn varaþingmenn okkar til þess að við getum farið í smáfrí með fjölskyldum okkar. Það er bara ekki nokkurt einasta vandamál.

Ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti nú að fara að taka upp nýja stjórnunarsiði, fara að tala við okkur í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum af einhverri sanngirni til að koma þessu (Forseti hringir.) samfélagi áfram en ekki aftur á bak.