140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ólafar Nordal varðandi þróunina í vinnubrögðum þingsins í dag. Þetta er mjög dapurlegur dagur ef horft er til hvernig umræðan hefur verið hér.

Ég verð að segja það alveg eins og er að það var mjög ómaklegt af hæstv. forsætisráðherra þegar hún vændi hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur um að vilja fara með dagskrárvaldið. Það hefur enginn sýnt yfirlæti í dag í þeim efnum nema hæstv. forsætisráðherra sjálf sem steytti hnefann mjög ósmekklega framan í þing, framan í þingmenn og talaði til þeirra í hótunartón.

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra getur notað slíkar aðferðir í sínum eigin flokki og rekið fólk sem ekki þóknast henni en hún getur ekki sýnt þinginu þessa framkomu og talað (Forseti hringir.) eins og hún sé sú eina sem ræður og fari hér með allt dagskrárvald. (Forseti hringir.) Það er mjög ósmekklegt og er full ástæða til þess, virðulegi forseti, að það sé rætt sérstaklega á fundum forsætisnefndar (Forseti hringir.) og að gerðar séu athugasemdir við hæstv. forsætisráðherra.