140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð þeirra tveggja þingmanna sem töluðu á undan mér. Þegar maður lítur yfir daginn í dag og daginn í gær, hvernig framkvæmdarvaldið hefur beitt þingið pólitísku ofbeldi við að koma þessu máli áfram, þá er maður mjög hugsi yfir stöðunni sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég hef talað fyrir því að forseti þingsins komi úr stjórnarandstöðunni. Þá værum við kannski ekki í þessu þrátefli. Þetta er orðið með þvílíkum ólíkindum, starfshættir þingsins undir forustu Samfylkingarinnar sem forseti þingsins fer með og virðist lúta skipunum frá forsætisráðherra, að við það verður ekki unað lengur.

Svo er ég, virðulegi forseti, líka afar undrandi á því hvernig hæstv. forsætisráðherra leyfir sér að koma fram gagnvart þingmönnum í salnum og húðskamma þá ef þeir láta ekki að vilja hennar þrátt fyrir að hún sé búin að steyta hnefann í allan dag og sýna sitt rétta andlit. Þetta er ógeðfellt.