140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að mjög skynsamlegt væri fyrir forustumenn flokkanna og þingflokksformennina að setjast niður og reyna að ræða málin og leysa þau, sérstaklega eftir þá uppákomu sem varð hér í morgun og svo aftur núna. Ég hef verið dálítið hugsi yfir því í dag og kannski ekki síst núna á síðustu mínútum hvers vegna við erum að búa til þetta starfsumhverfi. Ég held að mörgum líði ekki mjög vel í þessari vinnu við slíkar aðstæður, að minnsta kosti líður mér ekki vel.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að ræða málin. Ég held að við höfum það öll að markmiði að vinna sem best að hag þjóðarinnar en við gerum það ekki svona. Þess vegna er mjög mikilvægt að forustumenn flokkanna og þingflokksformenn setjist niður og reyni að leysa þetta af einhverri skynsemi því að okkur miðar ekki mikið áfram með þessum hætti.

Ef ég kem síðan aðeins að þeim málum sem við erum að ræða þá verð ég að viðurkenna að maður er svo sem ekki vel upplagður að fara í ræðuhöld eftir svona uppákomur. En eigi að síður, vinnubrögðin í þessu máli eru auðvitað ekki ásættanleg, það gefur augaleið. Það er mitt álit. Hvers vegna? Vegna þess að við erum að fara í breytingar á Stjórnarráðinu í lok kjörtímabilsins. Hefði ekki verið skynsamlegra að haft hefði verið samráð við stjórnarandstöðuna hvernig við færum í þessar breytingar?

Breytingarnar eiga að taka gildi 1. september í haust. Þá eru eftir örfáir mánuðir af kjörtímabilinu. Er þá ólíklegt að næsta ríkisstjórn mundi breyta því fyrirkomulagi? Ég er ekki viss um það. Ég tel reyndar miklar líkur á að það verði gert. Ég held að mjög skynsamlegt sé fyrir okkur að fara að ræða það hvernig við viljum koma Stjórnarráðinu fyrir. Ég sakna þess dálítið í umræðunni að við berum virðingu fyrir skoðunum hver annars og leitum að einhverri lausn sem við gætum fundið hugsanlega til hagsbóta fyrir okkur inn í framtíðina, því að ríkisstjórnir koma og fara. Við vitum alveg hvernig það gerist þegar ríkisstjórn er mynduð, alveg sama hver hún er. Menn fara þá að koma þetta og þetta mörgum einstaklingum fyrir og fara að skipta upp ráðuneytum til að gera þennan eða hinn ánægðan og þar fram eftir götunum. Því tel ég mjög mikilvægt að við þróum umræðuna í þá veru að hægt sé að ná einhverri niðurstöðu um hvernig við viljum byggja Stjórnarráðið upp. Ég tel reyndar að það sé ekki ofboðslega langt á milli ef við hefðum sett vinnubrögðin í annan farveg en þau eru í núna.

Ég hef líka velt öðru fyrir mér, ég verð að viðurkenna að þeir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sem hyggjast greiða tillögunni atkvæði hljóta að vera með eitthvert smábragð í munninum. Þær breytingar sem við erum að fara í núna, í þeirri óvissu sem er fram undan um hvort þær munu vera með þeim hætti eins og gert er ráð fyrir, kosta í kringum 250 millj. kr. mundi ég giska á. Kostnaðaráætlun segir 125–225 millj. kr. en ég mundi halda 250 millj. kr. Í fyrri breytingum á Stjórnarráðinu sem farið var í á árinu 2010–2011 var gert ráð fyrir í kostnaðargreiningunni, sem er vörn þeirra sem segja að farið verði varlega með fé, 160 millj. kr. en það endaði í 243 millj. kr.

Af hverju segi ég að þeir sem ætli að samþykkja þetta mál séu hugsanlega með eitthvert óbragð í munni? Það er vegna þess að á sama tíma og verið er að setja 500 millj. kr. bara í þetta hér er verið að skera niður á mjög viðkvæmum stöðum í samfélaginu. Mig langar örstutt, virðulegi forseti, að nefna könnun sem var gerð á störfum og starfsskilyrðum forstöðumanna ríkisstofnana, unnin á vegum fjármálaráðuneytisins og fleiri aðila. Þar kemur fram að einungis einn af hverjum tíu forstöðumönnum heilbrigðisstofnana telur sig geta staðið undir þeirri lögbundnu þjónustu sem heilbrigðisstofnunum er falið að veita, 10% telja sig geta gert það. En á sama tíma og menn fara út í svona kostnað er boðaður enn frekari niðurskurður í haust.

Ég hef stundum tekið það upp í þessum ræðustól að alltaf eru til nógir peningar í einhver gæluverkefni sem þjónkast stjórnvöldum, eins og í þessu tilfelli. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ætti ég aðild að ríkisstjórnarflokkunum í dag mundi ég aldrei greiða svona hlutum atkvæði mitt, aldrei, á sama tíma og verið er að fara í sársaukafullar aðgerðir annars staðar.

Ég get nefnt margt fleira. Við getum farið yfir fréttir af umgjörð og starfsskilyrðum lögreglumannanna í landinu. Nei, ekki eru til peningar í það en nógir peningar eru til í þetta verkefni. Hægt er að telja upp mörg fleiri verkefni. Hver eru helstu markmið ríkisstjórnarinnar í mörgum málum? Hún hælir sér á tyllidögum. Margir hv. stjórnarliðar komu upp í umræðum um störf þingsins fyrr í vikunni og töluðu um afrek ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra er kona, fjármálaráðherra er kona, formaður fjárlaganefndar og allt þetta, biskup, kona — auðvitað er ekki hægt að þakka ríkisstjórninni það — og margt annað, fínt. En þegar kemur að því að sýna verkin og hvernig ríkisstjórnin vinnur og forgangsraðar peningunum þá felst það í því að sagt er: Við ætlum að fara í kynjaða fjárlagagerð til að reyna að vinna bug á þeim hlutum þar sem hallað hefur á konur í gegnum tíðina. Það er auðvitað göfugt markmið.

En hver er niðurstaðan síðan? Niðurstaðan er sú að peningar eru til í svona hluti en á sama tíma er einmitt verið að reka konurnar út af heilbrigðisstofnunum til dæmis, skera niður og reka þær út. Þannig er framkvæmdin í raun og veru á því sem verið er að gera.

Mig langar að nefna eitt nærtækt dæmi sem ég hef verið eiginlega miður mín út af lengi því að loka á svokallaðri E-deild á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Það á að loka henni núna í júní. Það liggur ekki fyrir svo mér sé kunnugt um hvað verður um þá vistmenn sem þar eru. Auðvitað verður þeim ekki hent út á götu, það verður hugsað um þá með öðru móti. Það á að segja upp 28 konum, bara svona. En það kostar minna að hafa þær í vinnu en fara í þessar breytingar hér, það kostar minna. Þær konur sem vinna þar hafa starfað margar hverjar og flestar í jafnvel áratugi og sumar þeirra hafa helgað allan sinn starfsaldur þessari einu stofnun. Þetta er þakklæti og virðing ríkisstjórnarflokkanna gagnvart þessum störfum. Staðreyndirnar tala þegar við förum yfir hvernig þetta er.

Ég velti því líka fyrir mér hver skilaboðin eru til fólksins, vistmannanna, sem hefur lagt mikið á sig gegnum tíðina og er ekki kröfuharður þrýstihópur og sama má segja um aðstandendur þessa fólks. Ef við setjum það í þetta umhverfi, öll sú óvissa og allt sem þessu fylgir, er rosalega erfitt að þurfa að taka svona erfiðar ákvarðanir. Og þess vegna segi ég: Þegar peningar eru til í svona verkefni, sem liggur fyrir að muni hugsanlega ekki nýtast, þá hlýtur að vera erfitt að axla þá ábyrgð að greiða atkvæði með þessu og þurfa síðan að horfa framan í hitt til viðbótar. Það hlýtur að vera erfitt.

Þá hef ég einnig verið að hugsa; hvernig skyldu sumir stjórnarliðar vera í þessari umræðu ef þeir væru í stjórnarandstöðu? Ég hugsa að annað hljóð væri í mörgum hverjum og sumum hæstv. ráðherrum. Ég sé fyrir mér hæstv. forsætisráðherra ef ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks væri að taka slíkar ákvarðanir gagnvart fyrrnefndum hópi á sama tíma og verið væri að gera svona hluti. Ég hugsa að annað hljóð væri komið í strokkinn, ég hugsa að það væri önnur sýn.

Ég ætla að enda ræðuna eins og ég byrjaði hana, virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt fyrir forustumenn flokkanna og formenn þingflokkanna að setjast niður og reyna aðeins að slíðra sverðin og ná samkomulagi á vitrænum nótum þannig að við lendum ekki aftur í þeim uppákomum sem voru hér í dag.