140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:12]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Honum tekst það jafnan vel að vera málefnalegur og sannfærandi í málflutningi sínum. Þó að ég sé kannski ekki alltaf sammála hv. þingmanni þá tek ég hins vegar hatt minn ofan fyrir nálgun hans að viðfangsefninu.

Vegna þeirrar umræðu sem spannst fyrir nokkrum mínútum, virðulegi forseti, um samningaviðræður og samningaumleitan á milli þingflokksformanna stjórnar og stjórnarandstöðu, þá get ég sagt fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar að mikill vilji er til þess að semja við fulltrúa stjórnarandstöðunnar um lyktir þeirra mála sem eru á dagskrá í dag. Það stendur fullur vilji til þess að sest verði yfir þau mál sem eru á dagskrá í dag og samið um hvernig lyktir þeirra eigi að vera.

Ég er ósammála þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins sem lét þau orð falla fyrr í kvöld að henni væri slétt sama hvort þau mál sem á dagskrá eru verði að lögum. Ég er henni ósammála þar. Ég tel að þau mál sem eru á dagskrá, atvinnutengd starfsendurhæfing, réttindagæsla fyrir fatlað fólk, nauðungarsala, málshöfðunarfrestur og greiðsluaðlögun einstaklinga, svo eitthvað sé nefnt, séu öll mikilvæg mál og ættu að ná fram að ganga á þessu vorþingi. Ég ítreka þess vegna að fullur vilji er hjá formönnum þingflokka stjórnarflokkanna að semja um lyktir allra þeirra mála sem hér eru á dagskrá.

Hvað snertir það mál sem nú er til umræðu, og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt hart í dag, þá get ég kannski ekki á 24 sekúndum sem eftir lifa af þessu andsvari farið mjög djúpt í það. En heildarmarkmiðið er fyrst og fremst að sjálfsögðu hér, og ég held að við þingmenn séum því sammála, að taka skref í átt að faglegri stjórnsýslu, styrkja stjórnsýsluna, gera embættismönnunum betur kleift að takast á við þau flóknu verkefni sem eru á þeirra borði. Það er markmið stjórnarinnar með þingsályktunartillögunni og um það getum við væntanlega verið sammála, það á að vera markmiðið með þessari tillögu um Stjórnarráð Íslands.