140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:16]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka góða fundarstjórn í kvöld. Ég ætla að varpa einni hugmynd að hv. þingmanni þegar við ræðum skipan ráðherraembætta, hvort hann teldi það vera hyggilega lausn að búa til einhvers konar embætti aðstoðarráðherra. Ímyndum okkur að við höfum hér stór og öflug ráðuneyti, t.d. á sviði velferðarmála, eða öflugt ráðuneyti sem sér um atvinnuvegina í landinu. Og þegar upp kemur tímabundið ástand og hin pólitíska stjórn landsins mun leggja þunga áherslu á eitthvert ákveðið málefni, ímyndum okkur skuldamál heimilanna, ferðamál eða einhverja tegund nýsköpunar eða eitthvað slíkt, það eigi að vera svona þungamiðjuverkefni í einhvern tiltekinn tíma, eitt, tvö, þrjú, fjögur ár, að þá væri hægt að skipa sérstakan ráðherra sem aðstoðarráðherra. Eða ráðherra ákveðins málaflokks í einhvern tiltekinn tíma til að geta þá veitt þeirri manneskju, karli eða konu, aðgang að ríkisstjórnarborðinu. Hún fengi að koma að lykilákvörðunum og um leið yrði viðkomandi málaflokkur settur í svolítið — yrði þá sýnt fram á — ég er að leita að rétta orðinu, ég finn það ekki alveg — að hin pólitíska stjórn í landinu mundi vilja leggja áherslu á einhvern ákveðinn málaflokk, svo ég fari fjallabaksleið að því sem ég er að reyna að segja.

Ég held að þessi hugmynd gæti verið eitthvað sem við ættum að velta fyrir okkur til lengri tíma litið vegna þess að maður gæti ímyndað sér að það hefði verið ákjósanlegt að sameina hinar ólíku stofnanir undir einn hatt í tímabundin verkefni, til að leggja áherslu á einhvern ákveðinn málaflokk í tiltekinn tíma til að gefa honum fókus, til að gefa honum áherslu, vonandi einhverja fjármuni og þar með gætum við styrkt áherslusviðin í tiltekinn tíma. Og svo þegar því verkefni væri lokið eða menn væru búnir að koma fyrir vind í einhverjum ákveðnum erfiðleikum, þá gætu menn breytt aftur um áhersluatriði.