140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að svara þessari spurningu hv. þingmanns. Ég hef farið yfir það í umræðum við breytingar á Stjórnarráðinu árin 2010–2011 og aftur núna að ég er mjög hlynntur því að við skoðum það mjög rækilega og skoðum kosti þess og galla að hafa aðstoðarráðherra. Við þurfum að taka þá umræðu á faglegum og rökrænum nótum því að við vitum hvernig þetta virkar. Ef koma þarf fleirum í ráðherrastól þá er ráðuneytunum skipt upp aftur þegar einhver önnur ríkisstjórn kemur. Það er bara þannig, við þekkjum það vel. Við þurfum ekki að tala neitt í kringum það.

Ég tel mjög skynsamlegt að skoða þessa hluti og er mjög jákvæður gagnvart því. Eflaust eru einhverjir ókostir og því þurfum við að ræða þetta á þeim forsendum og þeim grunni sem við viljum.

Ég er líka mjög hlynntur því að við höfum þetta þannig að þegar ráðherrar koma inn komi þeir með ákveðinn fjölda aðstoðarmanna og þeir fari síðan með þeim út aftur, sitji ekki eftir í ráðuneytinu eða séu settir til hliðar af næstkomandi stjórnvöldum. Við þekkjum allt þetta ferli.

Ég skil ekki af hverju við skyldum ekki hafa klárað það í þessari umræðu að ráða inn í Stjórnarráðið í heild sinni. Ég tel skynsamlegra að ráða þannig inn í Stjórnarráðið vegna þess að þegar ákveðið álag yrði í Stjórnarráðinu gætum við fært til starfsfólk í vissum ráðuneytum ef minna álag væri þar. Þetta held ég að væri líka farsælt gagnvart því fólki sem starfar í Stjórnarráðinu. Við vitum að þegar til stendur að sameina ráðuneyti þá kemur óróleiki í ráðuneytin, hvernig það yrði gert o.s.frv., í staðinn fyrir að ráða inn í stjórnsýsluna og hafa hana í heild. Ég held að skynsamlegra væri að gera það þannig hjá þessari fámennu þjóð. Þetta hefur verið gert í sveitarfélögum þegar skólarnir voru sameinaðir. Þá réðu þau inn í grunnskóla sveitarfélaganna sem ekki inn í viðkomandi stofnun. Þetta er hlutur sem við ættum að gera til að styrkja og bæta stjórnsýsluna. Þá náum við fram markmiðunum.