140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki leynt sér þegar við ræðum fjárlögin hér að við höfum haft aðra sýn á það, nánast öll stjórnarandstaðan held ég, hvernig verja mætti peningunum betur. Það er auðvitað mjög átakanlegt — og því sagði ég það í ræðu minni áðan að ef ég væri í ríkisstjórnarflokki við þessar aðstæður mundi ég aldrei greiða þessu atkvæði — að á sama tíma og við erum að setja peningana í ranga forgangsröðun að mínu mati, og hv. þingmaður fór yfir nokkrar staðreyndir í því og þær eru auðvitað miklu fleiri, erum við að búa til umhverfi eins og til dæmis hjá heilbrigðisstofnunum úti á landi. Ég man vel eftir fundunum sem við fórum á, þingmenn, til dæmis í Norðvesturkjördæmi, og það var auðvitað í öllum kjördæmum og um allt landið sem boðaður var kannski 40% niðurskurður á heilbrigðisstofnunum. Hvaða skilaboð eru þetta út í samfélögin? Ég hef miklar áhyggjur af því og ég held reyndar að það sé staðreynd að þetta hafi sent þau skilaboð að samfélögin urðu hálflömuð.

Ég nefndi eitt dæmi áðan sem ég hef verið mjög argur yfir, það er lokun á svokallaðri E-deild sjúkrahússins á Akranesi. Ég held að það væri hollt fyrir til dæmis hæstv. forsætisráðherra og þá sem bera ábyrgð á þessu að heimsækja þá deild og skoða og kynna sér það óeigingjarna starf sem þar er unnið. Eins og ég sagði í ræðu minni hafa sumar kvennanna unnið þar áratugum saman og margar helgað þessum vinnustað allan sinn starfsaldur. Hvert er umhverfið? Þessum ágætu konum er hent út um dyrnar og þær verða að spjara sig sjálfar, sem þær hafa gert, en hverjir eru möguleikarnir? Möguleikarnir fyrir þetta fólk til að fá vinnu í heilbrigðisþjónustu einhvers staðar á þessu svæði eru nánast engir og það segir sig sjálft að ef þær ætla að fara í eitthvert hlutastarf til Reykjavíkur gengur það varla upp. Þetta eru í raun og veru skilaboðin. Á sama tíma halda menn innblásnar ræður um að hér sé komin kynjuð fjárlagagerð og kynjuð hagstjórn sem eru auðvitað bara einhverjir frasar sem ekkert innihald er fyrir.