140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af niðurskurðinum í heilbrigðisstofnunum úti á landsbyggðinni sem er auðvitað gríðarlegur, að þá megum við heldur ekki gleyma því að það er líka búið að skera mjög mikið niður á Landspítalanum og fólkið sem þar starfar, stjórnendur og starfsfólk, hefur staðið sig mjög vel í að takast á við það verkefni.

Mín sýn á þetta er eitthvað á þá leið að ef við lendum í efnahagshruni og þurfum að forgangsraða í ríkisfjármálum og sníða okkur stakk eftir vexti — ég hef miklar áhyggjur af því að við náum ekki jöfnuði í ríkisfjármálunum fyrr en allt of seint, við erum alltaf að fresta því og horfumst ekki í augu við vandamálið að mínu áliti — mundum við bara gera eins fólk gerir þegar það rekur heimili. Auðvitað byrjum við á því að verja grunnstoðir samfélagsins. Er það ekki heilsugæslan, velferðarmálin, löggæslan, samgöngumálin og þar fram eftir götunum? Ég kom líka inn á í ræðu minni starfsumhverfi til dæmis lögreglunnar sem hefur verið í fréttum undanfarna daga og vikur þar sem lögreglumenn eru orðnir mjög einir í starfi. Þeir hafa orðið varir við miklu meiri eða harðari átök í samfélaginu og eru farnir að tala um að þeir þurfi jafnvel að hafa rafbyssur og vopn í bílunum. Ég hefði því haldið að menn mundu forgangsraða og segja: Meðan við getum ekki sinnt þessu sómasamlega setjum við ekki peninga í önnur verkefni, geymum þau. Þetta er svipað og að eiga ekki mat fyrir börnin sín en fara svo út í búð og kaupa sér sígarettur og áfengi eða einhver álíka samlíking. Ég hélt að menn mundu forgangsraða þannig í ríkisfjármálum. Auðvitað eigum við að sýna þessum starfsstéttum þá virðingu sem þær eiga skilið og sólunda ekki peningum í verkefni sem eru ekki samfélagslega jafnmikilvæg og þau sem ég hef nefnt í andsvari mínu.