140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þessum skoðunum með hv. þm. Ólöfu Nordal eins og hv. þm. Árna Páli Árnasyni og reyndar mun fleirum.

Í ljósi þess að ríkisstjórnin, hæstv. forsætisráðherra, setur þetta mál í þvílíkan forgang hefur sú ágæta sáttatillaga og tilraun til að greiða fyrir þingstörfum sem við hv. þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðum fram í dag verið slegin út af borðinu af stjórnarliðum, einfaldlega vegna þess að þetta mál er þvílíkt forgangsmál hjá ríkisstjórnarflokkunum að þeir eru tilbúnir að ýta öllu öðru til hliðar. Er ekki sérkennilegt í ljósi þess að gegn meiri hluta ríkisstjórnarinnar, sem er knappur eins og við þekkjum, eru komnir fram tveir fyrrverandi ráðherrar, tveir forustumenn hvor úr sínum stjórnarflokki, annars vegar hv. þm. Árni Páll Árnason og hins vegar hv. þm. Jón Bjarnason, sem hafa lýst andstöðu við málið í heild eða ýmsa þætti þess, að ríkisstjórnin skuli leggja svona mikla áherslu á að keyra það í gegn þegar ekki er ljóst hvort fyrir því sé meiri hluti nema með því að sækja stuðning til einhverra annarra? Það er sérkennilegt að þeir þingmenn sem eru væntanlega þess þenkjandi að styðja þetta mál skuli ekki koma hingað og setja fram rök sín í málinu.

Ég velti fyrir mér og vil spyrja vegna þess að hv. þingmaður nefndi tímafaktorinn sem ég tel líka vera mjög mikilvægan þátt. Ég sé ekkert að því að í upphafi kjörtímabils breyti menn Stjórnarráðinu vegna þeirra áherslna sem þeir ætla að láta koma fram á kjörtímabilinu, en ég verð að segja eins og er að mér finnst umhugsunarefni að hræra í Stjórnarráðinu korter fyrir þrjú, eins og sagt er, á síðasta árinu og láta breytingarnar taka gildi í haust. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún deili þeim skoðunum (Forseti hringir.) og hvort það sé ekki afar óskynsamlegur tímarammi fyrir svona umfangsmiklar (Forseti hringir.) breytingar.