140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:05]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur kærlega fyrir mjög athyglisverða ræðu. Í þessari tillögu virðist gert ráð fyrir því að auðlindanýtingarmál og umhverfisverndarmál verði sameinuð undir eitt ráðuneyti. Ég hef lýst í ræðu í þinginu áhyggjum mínum af þessu vegna þess að í eðli sínu er umhverfisráðuneytið skipað sérfræðingum og fólki sem hefur mikinn áhuga á umhverfismálum. Umhverfisvernd hneigist oft í þá átt að takmarka auðlindanýtingu. Ég hef því verið að spá í þetta og vildi fá álit hv. þingmanns á því að sameining þessara mála, auðlindanýtingar og umhverfisverndar, muni gera að verkum að auðlindir okkar Íslendinga verði kannski ekki nýttar eins og hagkvæmast er, þ.e. að náttúran og umhverfið verði alltaf látin njóta vafans eins og við höfum heyrt í málflutningi hæstv. umhverfisráðherra síðustu þrjú ár í þinginu. Hvað finnst hv. þingmanni um að sameina eigi þessi mál inni í umhverfisráðuneytinu, og taka í raun auðlindanýtinguna út úr atvinnuvegaráðuneyti? Mér finnst sá þáttur eiga betur heima þar, þá er ég sérstaklega að hugsa um Hafrannsóknastofnun, mér dettur hún í hug svona í fljótu bragði, en eflaust mætti nefna fleiri þætti inni í þessu nýja auðlinda- og umhverfisráðuneyti.