140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við þessari spurningu er nei. Farið hefur verið yfir það í umræðum um málið að það var keyrt af miklu offorsi í gegnum nefndina. Við máttum tæpast fá til okkar gesti. Haldnir voru tveir stuttir gestafundir og ég fékk það í gegn með harmkvælum að fá fulltrúa frá þeim sem eru neikvæðastir út í þingsályktunartillöguna í hjáskýrslu sem ekki er lögð fram sem fylgiskjal með þingsályktunartillögunni, til að koma á fund nefndarinnar.

Hlutverk nýs auðlinda- og umhverfisráðuneytis hefur ekki verið útskýrt öðruvísi en sem segir í þessari tillögugrein, með leyfi forseta:

„Með því að stofna nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti á grunni umhverfisráðuneytisins er lögð áhersla á aukið hlutverk þess varðandi sjálfbæra nýtingu auðlinda í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Ráðuneytið mun m.a. fá það hlutverk að setja viðmið um sjálfbærni sem ætlað er að tryggja ábyrga umgengni við náttúruna og allar auðlindir hennar.“

Þetta er bara kratatexti, að sameina allt og sjálfbæra nýtingu og allt þetta. Eins og ég fór yfir í andsvari við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson áðan er þetta líklega lykillinn að því að viðræður við Evrópusambandið geti haldið áfram vegna auðlindaásækni Evrópusambandsins hér á landi. Mig langar aðeins að benda á að þeir aðilar sem voru hvað neikvæðastir út í að þetta ráðuneyti yrði stofnað, til dæmis Samorka, benda á að rannsóknir og stjórnun auðlinda verði hjá Umhverfisstofnun og að stofnanir Umhverfisstofnunar og málsvarar náttúru verjast framkvæmdum, að sami ráðherra geti ekki bæði varið náttúruna og farið í stýringu náttúruauðlinda vegna þess að það eru svo miklir hagsmunaárekstrar þar á milli. Og eins og við vitum (Forseti hringir.) mynda umhverfisverndarsinnar líka mikinn þrýstihóp. Slíkar athugasemdir eru (Forseti hringir.) gegnumgangandi í þeim umsögnum sem komu frá þeim sem eru á móti stofnun þessa ráðuneytis.