140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerði að umræðuefni í ræðu sinni þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við meðferð málsins í nefndinni. Flýtirinn og annað slíkt hefur aðallega verið skilgreint, útskýrt og afsakað með því að þetta séu þó betri vinnubrögð en tíðkuðust hér á árum áður. Ég er svo bláeygð að ég hélt að við ætluðum að breyta vinnubrögðum til hins betra, ekki með því að hækka úr lagasetningareinkunninni 3 upp í 4 á skalanum 1–10, heldur hélt ég að við ætluðum kannski, í ljósi allrar umræðunnar um bætt vinnubrögð, opna og gegnsæja stjórnsýslu, að stefna að 9 hið minnsta á skalanum 1–10. Er hv. þingmaður sammála mér um að það sé markmið sem við eigum að stefna að eða verður baráttan fyrir því að bæta vinnubrögð, hvort sem er innan stjórnsýslunnar almennt eða í þinginu, (Gripið fram í.) 100 ára stríð vegna þess að menn komast bara eitt hænufet í einu og við erum allt of föst í fortíðinni? Miðað við umræðuna í dag er sumir allt of fastir í því að hefna fyrir það hvernig klekkt var á þeim þegar þeir voru sjálfir í stjórnarandstöðu að þeir passa sig á því að sækjast ekki eftir samstarfi eða viðhafa vönduð vinnubrögð. Þeir miða ekki við að ná fram því besta heldur bara að vera aðeins skárri en þeir voru í gær.