140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum áfram um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og eins og ég gat um í fyrri ræðu minni er þetta spurningin um stjórnun. Það er ekki vanþörf á því að ræða stjórnun, sérstaklega ríkisins þannig að hún verði skilvirk.

Mig langar fyrst til að ræða um þau mál sem eru á dagskrá í dag og ég sakna að ekki sé hægt að ræða. Þar á meðal er niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar sem ég hef mikinn áhuga á frá fornu fari og er mikið á móti, einnig atvinnutengd starfsendurhæfing, sem ég held að sé mjög mikilvæg. Það sem ég held að sé mikilvægast og er allt of seint fram komið er réttindagæsla fyrir fatlað fólk, ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu sem búið er að bíða lengi eftir. Það mjög brýnt mál og ég er viss um að allir hv. þingmenn mundu vilja ræða það mál ítarlega og vandlega vegna þess að réttindagæsla fyrir fatlað fólk er mikið atriði, þetta er ekki sterkur hópur.

Svo mundi ég gjarnan vilja ræða um ný lög um heiðurslaun listamanna. Ég hef alltaf verið á móti heiðurslaunum listamanna. Nú á að fara að setja lög um það og formgera það svo það er ýmislegt sem ég gjarnan vildi ræða, svo ég tali nú ekki um greiðsluþátttöku í lífeyriskostnaði og lyfjagagnagrunni sem mér finnast vera ákveðin mistök. Það er margt sem ég vildi gjarnan ræða en ég ræði þetta mál hérna vegna þess að það er mjög mikilvægt.

Það sem mér finnst vera að í þessu er að menn eru alltaf að leita að deilum, það er eins og þessi ríkisstjórn sæki í ágreining. Það kom berlega fram í andsvari hæstv. forsætisráðherra þar sem hún var bara reið við þingið að voga sér að ræða ítarlega um nýskipun Stjórnarráðsins. Hún hótaði meira að segja eða lofaði því að við skyldum bara ræða þessi mál fram á sumar og haust þótt hún hafi ekkert með stjórn þingsins að gera. Það er forseti Alþingis sem ræður dagskrá þingsins.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir skiptust á andsvörum fyrr í dag og var mjög áhugavert að hlýða á það. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur kærlega fyrir nokkuð mikla þátttöku í þessum umræðum. Hún er reyndar ekki við núna en hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti á, eins og hún hefur áður gert, að í umræðunni að 2007 hafi menn farið létt í svona breytingu en núna væru breytingar ræddar mjög ítarlega. Ég benti á það í ræðu minni, sem hv. þingmenn hafa greinilega ekki munað eftir eða heyrt, að hér varð hrun og við ætluðum að breyta þessum vinnubrögðum. Við ætlum ekki að vinna eins losaralega og við gerðum, við ætlum að reyna að skerpa á stjórnsýslunni því að það kom í ljós í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að það var stjórnsýslan sem brást.

Það kom líka fram hjá landsdómi þar sem fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra var dæmdur eins mildilega og hægt var en hann var í reynd dæmdur fyrir mistök í stjórnsýslunni. Það er því stjórnsýslan sem er að bregðast og þess vegna verðum við að leggja töluvert mikla vinnu í breytingar, við eigum ekki að skirrast við að leggja vinnu í stjórnsýsluna, þ.e. skipan ráðuneyta í Stjórnarráðinu.

Síðan kom hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir og spurði hvers vegna svo mikið væri lagt upp úr þessu máli, af hverju við gætum ekki rætt önnur mál á dagskránni, sem ég fór í gegnum áðan að væru mjög mikilvæg. Það varð til þess að ég fór að velta vöngum yfir því af hverju í ósköpunum lögð væri svona gífurleg áhersla á þetta. Þó að ég sé ekki mikið fyrir að ráða í spilin eða spekúlera held ég að á bak við þetta sé vilji og ósk Vinstri grænna, þ.e. þeirra sem eru grænir í þeim samtökum — þeir skipast yfirleitt í tvennt, annaðhvort vinstri eða grænir — og lagt hafa mikla áherslu á auðlindirnar. Þeir vilja fá þetta auðlindaráðuneyti og til að friða þá skal það sett á laggirnar og inn í umhverfisráðuneytið. Það held ég að sé ein ástæðan fyrir því að mikið er lagt upp úr þessu. Nú er komið í ljós að nokkrir stjórnarliðar ætla ekki að samþykkja þetta og þá þurfa menn að treysta á stuðning annarra. Þá hafa menn leitað til Hreyfingarinnar sem vill endilega fá fram stjórnarskrá og umræðu um stjórnarskrá hversu hrá sem hún er. Þeir hafa ekki einu sinni fengist til að ræða stjórnarskrána efnislega en það á að demba því á þjóðina að taka afstöðu. Það er einmitt sem er 16. mál á dagskrá fundarins í dag þannig að ég held að þessi kapall sé nokkuð réttur hjá mér.

Þriðji flokkurinn í stjórnarsamstarfinu, fyrir utan Vinstri græna og Hreyfinguna er Samfylkingin. Hún vill bara eitt og það vita allir hvað það er, það er að ganga í Evrópusambandið, það er það eina sem þeir sjá og ég veit ekki hvað þeir ætla að gera eftir það, sennilega flytja þeir til Brussel.

Ég hef bent á að þessi tillaga til þingsályktunar er í reynd galtóm. Í staðinn fyrir að nota tækifærið og koma hingað með fullmótað ráðuneyti og segja: Svona ætlum við að hafa þetta, hér á Hagstofan að vera, hér á Landsvirkjun að vera, hún á að vera undir atvinnuvegaráðuneytinu, ekki undir auðlindaráðuneytinu, er þetta skilið eftir óleyst. Ég ætla ekki að reyna að ímynda mér hvað gerist í reykfylltum bakherbergjum þegar búið verður að samþykkja þessa þingsályktun, ef hún verður samþykkt, þar sem menn takast á um hvort Hafrannsóknastofnun eigi að heyra undir atvinnuvegaráðuneytið eða auðlindaráðuneytið, þar sem menn geta með góðum rökum fullyrt að stofnunin ætti að vera af því að Landsvirkjun sér jú um auðlindina og ræður meira að segja yfir henni í umboði þjóðarinnar. Þetta er mjög slæmt, fyrir utan tímasetninguna sem margir hafa nefnt hér og ég ætla ekki að vera að ítreka það, enda gat ég um það í fyrri ræðu minni.

Svona lagað gerir maður í byrjun kjörtímabils, þessi breyting verður komin í gagnið um það leyti sem kosið verður og ég er nærri viss um að ný ríkisstjórn mun breyta þessu hið snarasta. Ef ég á einhvern þátt þar að vonast ég til að hún komi með fullmótað og uppteiknað kerfi um hvernig ráðuneyti eiga að vera, bæði með kostnað og sparnað þannig að það sé eitthvert vit í þessu, einhver tilgangur.

Ég ætla að fara inn á stjórnun og mannlega þáttinn. Hjá ríkinu starfa 22 þúsund manns. Allt er það fólk sem vinnur alla daga og það er vel þekkt að þegar verið er að sameina fyrirtæki eða breyta strúktúr á fyrirtækjum, leggja þau niður og svo framvegis, mætir það óskaplega mikilli mannlegri mótstöðu af því að fólk er alltaf íhaldssamt í störfum sínum og vill ekki láta breyta starfsumhverfi sínu. Einhverjum verður sagt upp, það óttast menn að sjálfsögðu, nýir verða settir inn, það óttast þeir sem fyrir eru, sérstaklega yfirmenn, þannig að allar þessar breytingar kosta mikla óreiðu. Það kemur til viðbótar þeirri óreiðu og óvissu sem almenningur býr við eftir að hafa upplifað það sama hjá fyrirtækjum sem orðið hafa gjaldþrota, eftir að hafa upplifað það á ættingjum og vinum og sjálfum sér að verða atvinnulaus eða þurfa að minnka við sig vinnu.

Þetta er ekki það sem við þurfum núna rétt fyrir kosningar af því að þessu verður breytt aftur. Þetta er allt til ónýtis, meira og minna. Við eigum að salta þetta mál, bíða með það þangað til ný ríkisstjórn tekur við völdum. Hvort sem það verður í næsta mánuði eða eftir kosningar, eftir hálft ár eða eitt ár mun verða sett nýtt skipurit fyrir Stjórnarráðið, ég lofa því. Nú erum við komin með þetta tæki og þess vegna er ég hlynntur breytingunni sem slíkri en ekki á þessum tímapunkti. Það er mjög hættulegt og slæmt að koma með svona breytingu núna.