140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því síðasta. Ég held að það sé óhollt fyrir starfsmann að vera mikið lengur en átta ár í sama starfi og óhollt sé fyrir stofnunina að hann sé mikið lengur en átta ár í sama starfi. Ég tek því heils hugar undir að tekið verði upp miklu sveigjanlegra starfsmannahald og að menn geti skipt á milli stofnana og ráðuneyta o.s.frv. til að ná því fram.

Ég náði því ekki í ræðu minni af því að hún var svo stutt að ræða ítarlega um hinn mannlega þátt í starfsmannahaldi, sem er afskaplega mikilvægur eins og hv. þingmaður gat um. Mér finnst margir þingmenn tala eins og fólk sé einhverjar kennitölur, eða ég veit ekki hvað, hægt sé að ráðstafa því fram og til baka og það sé eins og viljalaust fé sem hægt sé að reka í réttir eins og mönnum dettur í hug. Hver einasti maður hefur sinn heim, sinn strúktúr, hann vill hafa ákveðið svæði í kringum sig, hann vill geta haft áhrif á starfsumhverfi sitt o.s.frv. Þetta er því mjög vandmeðfarið mál og það er mjög hættulegt að breyta allt of oft. Hins vegar getur verið nauðsynlegt að breyta öðru hverju, kannski á fjögurra, fimm eða tíu ára fresti.

Eins og ég gat um er nauðsynlegt fyrir viðkomandi starfsmann, fyrir þroska hans og til að hann staðni ekki og tréni í starfi eða kulni, að skipta reglulega um starf og hafa það sem hluta af menningu í opinberri stjórnsýslu.